Erlent

Stjórnvöld munu fá helming framlaga

Sérfræðingar í málefnum Afganistans létu í gær í ljós efasemdir um að afganskar her- og lögreglusveitir yrðu reiðubúnar til að taka við af erlendu herliði fyrir árið 2014, eins og forseti Afganistans fullyrti í gær. Nordicphotos/AFP
Sérfræðingar í málefnum Afganistans létu í gær í ljós efasemdir um að afganskar her- og lögreglusveitir yrðu reiðubúnar til að taka við af erlendu herliði fyrir árið 2014, eins og forseti Afganistans fullyrti í gær. Nordicphotos/AFP
Staðið verður við það markmið að afganski herinn taki við öryggisgæslu í Afganistan fyrir árið 2014. Þetta sagði Hamid Karzai, forseti landsins, á alþjóðaráðstefnu um málefni þess sem fram fór í Kabúl í gær.

Anders Fogh Rasmussen, framkvæmdastjóri NATO, segir að ekki komi til greina að fara frá landinu fyrr en víst sé að Afganar ráði við stjórnina. Jafnvel þó að þeir taki yfir öryggisgæslu munu hersveitir NATO vera áfram í landinu.

Karzai óskaði einnig eftir því í ræðu sinni að stjórnvöld fengju meira af þeim fjármunum sem alþjóðasamfélagið setur í uppbyggingarstarf í landinu. Hingað til hafa lönd verið treg til að veita ríkisstjórn landsins fjármagn heldur hafa látið mestan hluta aðstoðarinnar í alþjóðlegar hjálparstofnanir.

Samþykkt var í lok ráðstefnunnar að afgönsk stjórnvöld fengju 50 prósent framlaganna á næstu tveimur árum, en þau fá um fimmtung framlaganna í dag. Karzai hafði óskað eftir því að enn hærra hlutfall rynni til stjórnvalda.

Fulltrúar sjötíu ríkja komu saman á ráðstefnunni í gær. Öryggisgæsla var gríðarlega mikil í Kabúl og var borginni nánast lokað fyrir umferð.

Þrátt fyrir miklar öryggisráðstafanir var eldflaugum skotið á flugvöll borgarinnar og kom árásin til að mynda í veg fyrir að flugvél með Carl Bildt, utanríkisráðherra Svíþjóðar, og Ban Ki-moon, aðalritara Sameinuðu þjóðanna, gæti lent á vellinum. Þeir flugu í þyrlu á áfangastað, en utanríkisráðherra Danmerkur, Lene Espersen, missti af ráðstefnunni vegna þessa.

thorunn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×