Erlent

Fundu óhreyfða gröf Maya konungs í Guatemala

Fornleifafræðingar hafa fundið óhreyfða gröf Maya konungs í Guatemala. Fundurinn hefur vakið mikla athygli enda sjaldgæft að grafir sem þessar hafi sloppið undan grafarræningjum.

Sagt var frá þessum fornleifafundi fyrr í vikunni en konungsgröfin fannst undir El Diablo pýramídanum í bænum El Zots.

Grafhvelfingin er sex metra há, 12 metra löng og 4 metra breið. Talið er að hún sé 1.600 ára gömul og að konungurinn sem liggur þar sé með þeim áhrifameiri í sögu Mayanna, hafi jafnvel verið ættfaðir fjölskyldu sem ríkti lengi meðal þessarar þjóðar.

Gröfin var full af krukkum, klæðum, hnífum og öðrum áhöldum. Þar að auki voru beinagrindur sex barna til staðar í gröfinni en fornleifafræðingarnir telja að þessum börnum hafi verið fórnað þegar konungurinn var borinn til grafar.

Fornleifafræðingurinn Stephen Houston frá Brown háskólanum á Rhode Island segir í samtali við tímaritið Live Science að gröfin sé full af ýmsum áhugaverðum upplýsingum og að það muni taka fleiri ár að vinna úr þeim öllum.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×