Viðskipti innlent

Yfirlýsingar Breta um eignir Landsbankans eru endaleysa

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Gylfi Magnússon, efnahags- og viðskiptarápherra, sagði í samtali við fréttastofu að yfirlýsingar Breta um að ganga að eftirstandandi eignum Landsbankans séu einhver misskilningur og lagaleg endaleysa.

Landsbankinn sé þrotabú og í raun í eigu Breta og Hollendinga. Gylfi segir að ef Bretar ætluðu að gera alvöru úr hótunum sínum myndi slíkt fyrst og fremst bitna á Hollendingum þannig. Hann segist því eiga erfitt með að sjá að þetta verði nokkurn tímann staðreynd.

Lárentsínus Kristjánsson, formaður skilanefndar Landsbankans, sagði í samtali við fréttastofu að skilanefndin hefði ekki fengið neinar tilkynningar frá breskum stjórnvöldum um að þeir fjármunir sem safnast hafa inn á reikninginn í Englandsbanka verði hugsanlega gerðir upptækir af Bretum í kjölfar synjunar forsetans.

Fram kemur á vef breska dagblaðsins The Times í dag að breska fjármálaráðuneytið telji sig geta lagt hald á eftirstandandi eignir Landsbankans í Bretlandi í kjölfar synjunar forsetans.

Ráðherra bankamála í Bretlandi hefur hótað Íslendingum að ef íslenska þjóðin hafni Icesave-lögunum verði Íslendingar útilokaðir frá alþjóðlegum fjármálamörkuðum og muni ekki fá að ganga í Evrópusambandið. Bretar hafa hótað að taka yfir eftirstandandi eignir Landsbankans og Gordon Brown hefur hótað Íslendingum diplómatísku stríði.

Þess má geta að Bretar og Hollendingar eiga nú þegar allar forgangskröfur í þrotabú Landsbankans og þar með eignir hans. Afborganir af útlánasafni Landsbankans hafa safnast inn á reikning í Englandsbanka og áttu þessir fjármunir að verða tiltækir fyrir skilanefnd bankans á þessu ári.

The Times greinir frá því að nú séu að hefjast viðræður milli Breta og Hollendinga um málið og að af hálfu Breta muni Alistair Darling, fjármálaráðherra og Lord Myners, ráðherra bankamála, leiða þær viðræður.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×