Viðskipti innlent

Stefnt að frekari eignasölu hjá Íslandsbanka

Stefna Miðengis er að selja allar eignir sem félagið fær frá bankanum.
Stefna Miðengis er að selja allar eignir sem félagið fær frá bankanum. Mynd/Vilhelm

Íslandsbanki hefur selt 49% hlut í Skeljungi til Svanhildar Nönnu Vigfúsdóttur, en hún er hluthafi í Skel Investments sem er eigandi 51% hlutar í Skeljungi.

Miðengi, eignarhaldsfélag Íslandsbanka, hélt utanum hlutinn fyrir bankann. Samkvæmt heimildum Vísis.is er frekari tíðinda að vænta frá Miðengi í næstu viku.

Stefna Miðengis er að selja allar eignir sem félagið fær frá bankanum, að því er segir á heimasíðu fyrirtækisins.

Í kjölfar fjármálakreppunnar hafa mörg fyrirtæki fallið í faðm bankanna. Eignarhald þeirra á þessum fyrirtækjum þarf þó ekki að vera tilkomið vegna rekstrarerfiðleika.

Í ljósi sölu Miðengis á hlut sínum í Skeljungi er áhugavert að skoða fyrirtækin sem það á hlut í. Miðengi á hluti í fleiri fyrirtækjum en hér eru nefnd.

Miðengi á Steypustöðina að fullu og heldur um 33% hlut í 66° Norður. Eignarhluturinn er reyndar einungis í rekstrarlegri umsjón hjá Miðengi en hann er í eigu Íslandsbanka. Sigurjón Sighvatsson kvikmyndaframleiðandi er aðaleigandi fyrirtækisins.

Einnig á Miðengi 37% hlut í Capa Invest, sem aftur á 26% hlut í móðurfélagi Capacent. Eignarhluturinn er ekki í söluferli, segir á heimasíðu Miðengis.

Miðengi á 48% hlut í GLB Glacier Renable. Eina eign sjóðsins er 40% eignarhlutur í Geysi Green Energy. Eignarhluturinn í GLB Glacier er ekki í söluferli. Vinna við fjárhagslega endurskipulagningu GGE stendur yfir, segir á heimasíðunni.

Miðengi á 20% hlut í Auðkenni, sem býður upp á lausnir í öryggismálum í rafrænum viðskiptum, ásamt öðrum fjármálafyrirtækjum og Símanum. Og 24% hlut í Median-rafrænni miðlun hf.

Þá á fyrirtækið að fullu fasteignina sem leikskólinn Sjáland í Garðabæ er starfræktur í.

Miðengi á einnig Laugarakur ehf. sem á og rekur íbúðarhúsnæði á Arnarneshæð. Og Rivilus ehf. sem á Lækjargötu 10-12 (útibú Íslandsbanka í Lækjargötu) ásamt Vonarstræti 4b.

Miðengi á 38% hlut í Eignarhaldsfélaginu Fasteign, sem það á ásamt opinberum aðilum, og heldur utanum fasteignir þeirra.

 

Listi yfir eignir Miðengis.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×