Viðskipti innlent

Ekki rætt um skráningu á markað

ari edwald Rætt verður um skiptingu á hlutafé 365 miðla og aukningu hlutafjár í dag.fréttablaðið/valli
ari edwald Rætt verður um skiptingu á hlutafé 365 miðla og aukningu hlutafjár í dag.fréttablaðið/valli

Eiginfjárhlutfall 365 miðla mun ríflega tvöfaldast gangi hlutafjáraukning fyrirtækisins upp á einn milljarð króna eftir. Málið verður tekið fyrir á hluthafafundi fyrirtækisins í fyrramálið.

Fyrir liggja hugmyndir um að skipta hlutafé 365 miðla í A-hluta, sem ber atkvæðarétt, og B-hluta, sem er án atkvæðaréttar en nýtur forgangs 25 prósent nafnverði arðgreiðslna. Hlutaféð skiptist í áðurnefnd hlutföll.

Ari Edwald, forstjóri 365 miðla, sem meðal annars gefur út Fréttablaðið, segir féð tryggt. Eignarhald og skipting á eignahlutum verði að vera gefin upp eftir hlutafjáraukninguna fyrir 1. apríl næstkomandi.

Hann segir núverandi eigendur og aðila þeim tengdum á meðal þeirra sem leggi til hlutafé í A-hluta. Stærsti hluthafi fyrirtækisins er Jón Ásgeir Jóhannesson. Utanaðkomandi fjárfestar muni líklega tryggja sér forgangsbréfin í B-hluta.

„Þetta er algengt fyrirkomulag hjá erlendum fjölmiðlafélögum," segir hann og vísar til bandaríska stórblaðsins Wall Street Journal, sem skiptir hlutafé sínu með sambærilegum hætti.

Ekki hefur verið rætt um skráningu félagsins á markað á ný, að sögn Ara. - jab








Fleiri fréttir

Sjá meira


×