Erlent

Segja Hizbolla koma sér upp mannlegum skjöldum

Óli Tynes skrifar
Eldflaugar Hizbollah á leið til Ísraels.
Eldflaugar Hizbollah á leið til Ísraels. Mynd/AP

Hizbollah samtökin í Líbanon neita að tjá sig um þær fullyrðingar Ísraela að samtökin séu að koma sér upp vopnabúrum í bæjum og þorpum í suðurhluta landsins.

Ísraelar hafa stigið það óvenjulega skref að gera uppskátt um njósnir sínar með því að birta loftmyndir af þessum vopnabúrum.

Þeir segja þetta sýna að Hizbolla noti íbúana sem mannlega skildi. Yakov Katz sérfræðingur í öryggismálum við dagblaðið Jerusalem Post sagði í viðtali við Sky fréttastofuna að með þessu séu stjórnvöld að vara umheiminn við því sem myndi gerast ef til átaka kæmi.

-Ef það verður stríð, segir Katz, verður mikið mannfall meðal óbreyttra borgara og miklar skemmdir þegar Ísraelski herinn gerir árásir á vopnabúrin.

Katz telur að ástæðan fyrir því að þetta sé upplýst nú sé reynsla Ísraela frá innrásinni á Gaza ströndina á síðasta ári.

Hamas samtökin notuðu þá óbreytta borgara sem skildi og hafa sætt ámæli fyrir það bæði hjá mannréttindasamtökum og Sameinuðu þjóðunum.

Yakov Katz segir að Ísraelar hafi ekki gert umheiminum grein fyrir því áður en innrásin var gerð.

Þeir hafi ekki búið umheiminn undir óhjákvæmilegt mannfall óbreyttra borgara af þessum sökum.

Katz getur ekkert um það að með innrásinni hafi mörgum þótt Ísraelar nota sleggju til þess að drepa mýflugu.

Hamas samtökin höfðu vissulega skotið þúsundum eldflauga á Ísrael frá Gaza ströndinni.

Manntjón var hinsvegar nánast ekkert og eignatjón lítið.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×