Lífið

Yesmine í matarferð í Dúbaí

Yesmine eldaði gómsætan mat úr bók sinni fyrir gesti í Abú Dabí.
Yesmine eldaði gómsætan mat úr bók sinni fyrir gesti í Abú Dabí.

Yesmine Olsson heimsótti Abú Dabí nú í mars á vegum Gourmand World Cookbook Awards til að kynna matreiðslubók sína, Framandi og freistandi - indversk og arabísk matreiðsla.

Yesmine hefur í nógu að snúast því hún er á leið til London til að kynna bókina auk þess sem hún mun kenna Bollywood-dansa á heilsuráðstefnunni Best of the Best sem haldin verður í Svíþjóð í haust.

Aðspurð segir Yasmine að heimsóknin til borgarinnar hafi verið stutt en ánægjuleg.

„Ég dvaldi þarna í fjóra daga og þetta var alveg ótrúlega skemmtileg ferð. Þarna voru samankomin ýmis útgáfufyrir­tæki og aðrir úr þessum kokkabransa og ég var þarna fyrst og fremst til að kynna mig og bókina. Nú er ég einnig orðin sjóaðri í þessu og mun afslappaðri þannig að ég hef orðið gaman af því að standa þarna og kynna bókina fyrir fólki. Það var líka mjög spennandi að heimsækja Abú Dabí og geta kynnst arabískri matarmenningu betur," segir Yesmine.

Hún segist hafa fengið tíma til að skoða sig aðeins um í borginni og heimsótti meðal annars matarmarkaði.

„Þetta er afskaplega falleg borg með mörgum fallegum byggingum. Ég skoðaði mig um á mörkuðum í frítíma mínum og kom auðvitað heim með fullar töskur af kryddi sem ég þarf núna að prófa mig áfram með. Ég fór einnig á döðlumarkað og það kom mér mikið á óvart hversu margar tegundir af döðlum eru til." - sm








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.