Erlent

Herða refsingar yfir unglingum

Óli Tynes skrifar
MYND/Shutterstock

Unglingar í Danmörku fá í dag sjálfkrafa það sem kallað er afsláttur í dómskerfinu. Afbrotamenn undir átján ára aldri geta þannig fengið mest átta ára fangelsisdóm, sama hvert brotið er.

Brian Mikkelsen dómsmálaráðherra er þeirrar skoðunar að það gangi ekki lengur, þar sem unglingar fremja stöðugt alvarlegri brot.

Það verði nú að taka meira tillit til fórnarlambsins en aldurs gerandans. Ráðherrann vísaði til þeirrar ólgu sem varð vegna dóms yfir sextán ára gömlum pilti sem varð öðrum unglingi að bana í Álaborg.

Hann var dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir ódæðið. Danskur almenningur rak upp ramakveikn og stjórnmálamenn sömu leiðis. Vestari landsréttur þyngdi dóminn eftir það í sjö ára fangelsi.

Brian Mikkelsen segir að ef menn séu nógu gamlir til þess að fremja afbrotið séu þeir einnig nógu gamlir til þess að taka út viðeigandi refsingu.

Fjórtán ára gamlir unglingar munu samkvæmt nýjum lögum geta hlotið sextán ára fangelsi sem er það lengsta sem gerist í Danmörku.

Mikkelsen hefur þegar tryggt meirihluta á þingi fyrir þyngri refsingum. Stjórnmálamennirnir ganga þarmeð þvert á álit Ungdómsnefndarinnar svokölluðu sem mælti gegn þyngri refsingum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×