Viðskipti innlent

Hluta skulda sparisjóðanna breytt í eigið fé/víkjandi lán

Seðlabanki Íslands mun í dag senda sparisjóðum landsins bréf með lýsingu á þeim skilmálum sem í boði eru við endurfjármögnun sparisjóðanna. Samtals nema kröfur bankans á hendur sparisjóðum um 9,6 milljörðum kr. að nafnverði en Seðlabankinn er meðal stærstu kröfuhafa hjá um átta sparisjóðum.

Tryggvi Pálsson, framkvæmdastjóri fjármálasviðs Seðlabankans, gerði grein fyrir málinu á morgunfundi efnahags- og viðskiptaráðuneytisins fyrir helgina. Þar fór hann yfir þær lausnir sem Seðlabankinn, fjármálaráðuneytið og sparisjóðirnir hafa unnið að við endurskipulagningu krafna Seðlabankans.

Helstu skilmálar eru að hluti skulda sparisjóða verði breytt í eigið fé og/eða víkjandi lán en eftirstöðvum verði breytt í almennt lán. Hvati verður til staðar til uppgreiðslu á kröfum.

Þá er ætlunin að stofnfé verði afskrifað að því marki sem varasjóður er neikvæður. Tryggvi Pálsson segir í þessu sambandi að þess sé vænst að stofnfjáreigendur taki það tap á sig.

Auk þess er gert ráð fyrir að stofnfjárhlutir sem Seðlabankinn kann að eignast verði yfirteknir af ríkissjóði er feli Bankasýslu ríkisins að fara með eignarhaldið. Sparisjóðirnir þurfa að uppfylla lausafjárkröfur Seðlabankans og kröfur FME fyrir áframhaldandi starfsleyfi og að viðkomandi sparisjóðir dragi til baka umsókn sína um eiginfjárframlag frá ríkissjóði að skuldbreytingu lokinni.

Tryggvi segir að fyrrgreindir skilmálar eigi aðeins við um þá sparisjóði þar sem Seðlabankinn er meðal stærstu kröfuhafa. Það á ekki við um Byr og Sparisjóðinn í Keflavík. „Þar mun Seðlabankinn væntanlega þurfa að taka þátt í þeim lausnum sem stærstu kröfuhafar leggja til," segir Tryggvi í samtali við Fréttastofu.

Sem fyrr segir verður bréf Seðlabankans sent í dag en Tryggvi segir að síðan taki við samningaviðræður við sparisjóðina. „Við stefnum að því að klára endurskipulagningu krafna Seðlabankans í lok mars næstkomandi," segir Tryggvi.

Þess ber að geta að kröfur Seðlabankans á þessa sparisjóði voru færðar til hans eftir fall Sparisjóðabankans. Við fallið voru innstæður sparisjóða hjá Sparisjóðabankanum færðar til Seðlabankans skv. ákvörðun FME en til mótvægis fékk Seðlabankinn fyrrnefndar kröfur a sparisjóðina.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×