Erlent

Bandarískum hermönnum fjölgar á Haítí

MYND/AP

Bandarísk stjórnvöld hafa ákveðið að senda fjögur þúsund hermenn til viðbótar til Haítí til þess að aðstoða við hjálparstarf í kjölfar skjálftans í síðustu viku sem talinn er hafa dregið allt að 200 þúsund manns til dauða.

Þessi fjölgun þýðir að nú eru um 16 þúsund bandarískir hermenn komnir til Haítí en hermennirnir sem eru á leiðinni hafa verið við störf í Persaflóa og í Afríku. Talan yfir fórnarlömb skjálftans hækkar dag frá degi og nú er búið að grafa um 75 þúsund lík. Um 1,5 milljón manna eru heimilisausir . Þótt rúm vika sé liðin frá því skjálftinn reið yfir er fólk enn að finnast í rústunum og í gær fannst fimm ára drengur heill á húfi. Fyrr um daginn fundust systkini, 10 ára stúlka og átta ára drengur. Allt í allt hefur björgunarsveitum tekist að bjarga rúmlega 120 manns úr rústum húsa í landinu.

Dominique Strauss Kahn, yfirmaður Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sagði í gær í viðtali á CNN að ríki heimsins þyrftu að koma á einskonar Marshall aðstoð til þess að hjálpa íbúum Haítí sem hafi gengið í gegnum ótrúlegar hörmungar á liðnum árum.

Íslensku rústabjörgunarsveitarmennirnir, sem eru á heimleið frá Haítí, gistu í nótt á Bahama eyjum, en þaðan verður svo haldið til Halifax og tekið eldsneyti, fyrir loka áfangann heim. Hinvað er sveitin væntanleg síðdegis. Hún skildi eftir búnað að. andvirði tíu milljóna króna, sem nýtist björgunarmönnum, sem áfram starfa á Haítí.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×