Erlent

Bjartsýnisturn vígður í gær

Á útsýnishæðinni. Þarna sést yfir Persaflóann og borgríki Sameinuðu arabísku furstadæmanna á Arabíuskaga.
Nordicphotos/AFP
Á útsýnishæðinni. Þarna sést yfir Persaflóann og borgríki Sameinuðu arabísku furstadæmanna á Arabíuskaga. Nordicphotos/AFP

Mikið var um dýrðir þegar hæsta bygging heims var vígð í Dúbaí í gær, á fjárhagslegum erfiðleikatímum sem eru þeir verstu í sögu furstadæmisins.

Við vígsluathöfnina var skýrt frá því að hæð turnsins er 828 metrar, en henni hafði verið haldið leyndri fram á síðustu stundu. Jafnframt var skýrt frá því að turninn hefði fengið nafni Burj Khalifa til heiðurs forseta Sameinuðu arabísku furstadæmanna, Sheikh Khalifa bin Zayed Al Nahyan.

Turninn, sem hefur verið í smíðum síðan 2004, státar af 206 hæðum, fjórum sundlaugum, nokkrum verslunarmiðstöðvum og útsýnispalli á 124. hæð. Hann er ekki aðeins stór í sniðum heldur sannkölluð glæsibygging þar sem hvergi er sparað. Sextán neðstu hæðirnar eru teknar undir hótel sem tískukóngurinn Giorgio Armani hefur hannað. Þar fyrir ofan eru íbúðir, skrifstofur og önnur aðstaða fyrir fyrirtæki af ýmsu tagi.

Smíðin hefur kostað 500 milljarða króna.

Dúbaí er eitt hinna sjö borgríkja í Sameinuðu arabísku furstadæmunum. Fyrir mannsaldri var Dúbaí lítið meira en sjávarþorp en hefur bólgnað út á síðustu tveimur áratugum. Fyrir jólin riðaði hins vegar fjármálakerfi landsins til falls þegar stærsta fyrirtæki þess, Dubai World, komst í greiðsluþrot.

Þúsundir manna mættu til vígsluathafnarinnar í gær og fengu að skoða herlegheitin, sem Dúbaímenn hafa kallað „lóðrétta borg“.

Dúbaímenn eiga einnig metið þegar spurt er um stærstu byggingu heims að fermetratali, sem er flugstöðvarbygging 3 við alþjóðaflugvöllinn í Dúbaí.

Stærsta bygging heims að rúmmáli er hins vegar Boeing-verksmiðjan í Everett í Washingtonríki Bandaríkjanna.

gudsteinn@frettabladid.is




Fleiri fréttir

Sjá meira


×