Erlent

Fimm „nýjar“ reikistjörnur

Eins og sést er heitt í kolunum á plánetunum sem Kepler hefur þegar fundið.
Eins og sést er heitt í kolunum á plánetunum sem Kepler hefur þegar fundið. MYND/NASA

Kepler geimsjónaukinn hefur fundið fimm reikisstjörnur utan sólkerfis okkar. Sjónaukanum var skotið á loft á síðasta ári og er honum ætlað að taka myndir af reikistjörnum í öðrum sólkerfum.

Fyrstu myndirnar eru komnar í hús og er um fimm reikistjörnur að ræða sem allar eru stærri en Neptúnus í okkar sólkerfi. Hjá geimferðastofnun Bandaríkjanna, NASA, eru menn himinlifandi með árangurinn en aðeins eru nokkrar vikur liðnar frá því að sjónaukinn hóf að taka myndir.

Að þeirra sögn gengur allt að óskum og vonast menn eftir að Kepler eigi eftir að finna margar plánetur á næstu árum og vonandi einhverjar sem eru líkari jörðinni en þær sem hingað til hafa fundist. Pláneturnar fimm sem Kepler hefur þegar fundið eru flestar mun stærri en jörðin eða að meðaltai fimmtán sinnum stærri.

Ein er fjórum sinnum stærri en allar eiga þær sammerkt að vera mun nærri sólum sínum en jörðin og því er hitinn á yfirborði þeirra allt of mikill til þess að möguleiki væri á lífi. Um leið og tilkynnt var um pláneturnar fimm í Washington í gær var greint frá því að Kepler hefði þegar greint mörg hundruð mögulegar plánetur en að lengri tími þurfi að líða þar til unnt er að skera úr um hvernig þær líta út í raun og veru.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×