Erlent

Vonast til að geta lesið í drauma fólks

Doktor Cerf og félagar vonast til að rannsóknir þeirra verði til þess að hægt verði að lesa í drauma. 
Nordicphotos/afp
Doktor Cerf og félagar vonast til að rannsóknir þeirra verði til þess að hægt verði að lesa í drauma. Nordicphotos/afp

Bandarískir vísindamenn segjast hafa smíðað búnað sem þeir vonast til að nýtist við að ráða í drauma. Þetta kemur fram í grein sem vísindamennirnir skrifuðu í tímaritið Nature.

„Við viljum geta lesið í drauma fólks,“ segir doktor Moran Cerf, sem leiðir rannsóknina. Markmiðið er að auka skilning á því hvernig og hvers vegna fólk dreymir.

Draumar hafa verið fólki hugleiknir um aldir en á síðustu árum hefur sálfræði verið notuð til að skilja hvað gerist í undirmeðvitundinni þegar fólk dreymir. Hingað til hefur einungis verið hægt að spyrja fólk út í drauma þess eftir að það vaknar. Markmið rannsóknar Cerfs og félaga er að þróa kerfi sem á að hjálpa fólki að muna drauma sína.

„Það eru engin skýr svör til við því hvers vegna fólk dreymir,“ segir doktor Cerf.

Cerf og félagar byggja rannsóknir sínar á því að hver heilafruma sé tengd ákveðnum atburði eða hlut. Hann komst meðal annars að því að þegar fólk hugsaði um Marilyn Monroe kviknaði á ákveðnu taugaboði. Með því að sýna hópi fólks myndaseríu gátu doktor Cerf og samstarfsmenn hans einangrað nokkur taugaboð og búið til gagnagrunn fyrir hvern sjúkling. Þannig kviknaði á sömu taugaboðum ef þeir hlutir eða atburðir komu fyrir í draumum fólks.

Doktor Cerf viðurkennir að ekki sé hægt að nota búnaðinn til að fanga drauma. Hann vonast þó til að niðurstöðurnar séu fyrsta skrefið í átt til þess.- kh




Fleiri fréttir

Sjá meira


×