Innlent

Kanna hugsanlega hvort styrkirnir hafi farið í einkaneyslu

Til greina kemur að skattyfirvöld kanni hvort framboðsstyrkjum til stjórnmálamanna hafi verið varið í kosningabaráttu eða til eigin nota. Styrkirnir eru tekjuskattsskyldir hafi þeir runnið beint í vasa stjórnmálamannanna.

Styrkjamál stjórnmálamanna hafa verið mikið í umræðunni og hefur verið kallað eftir því að þeir upplýsi hverjir styrktu þá. Sumir hafa neitað að gefa slíkar upplýsingar, aðrir hafa upplýst um hluta styrkjanna og enn aðrir gert hreint fyrir sínum dyrum og jafnvel sagt af sér þingmennsku.

Skattyfirvöld geta krafist þess að stjórnmálamennirnir upplýsi um hvernig styrkjunum hefur verið varið. Samkvæmt heimildum fréttastofu hefur slíkt ekki verið gert en til greina kemur að skattyfirvöld skoði hvort styrkjunum hafi að einhverju leyti verið ráðstafað til eigin þarfa eða til annars konar útgjalda en telja má til kostnaðar við framboð viðkomandi. Sé það raunin telst sá hluti styrksins til tekna og ber þá frambjóðandanum að greiða tekjuskatt af honum, eða um 40% skatt.

Samkvæmt heimildum er til skoðunar að kalla eftir upplýsingum frá öllum frambjóðendum í prófkjörum fyrir alþingiskosningarnar 2007 og sveitastjórnarkosningarnar 2006.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×