Skoðun

Baráttudagur verkafólks

Þóra Tómasdóttir skrifar
Í dag er 1. maí. Dagur sem helgaður er baráttu verkafólks fyrir bættum kjörum og vinnuaðstæðum. Dagur samstöðu.

Öll hljótum við að vilja samfélag þar sem fólk hefur í sig og á, þar sem fjölskyldur geta notið þess að vera saman, þar sem foreldrar geta verið með börnunum sínum eftir fæðingu og þar sem fólk getur hvílt sig og notið lífsins. Öll viljum við samfélag þar sem börn njóta réttarins til samvistar við foreldra sína, innihaldsríks skóladags og sjálfsagðra lífsgæða.

Öll hljótum við líka að vilja samfélag þar sem fólki líður vel í vinnunni sinni, nýtur virðingar og fær sanngjörn laun. Öll viljum við eldast með reisn og njóta lífeyris sem dekkar mannsæmandi líf. Þó margt hafi áunnist er enn langt í land.

Óútskýrður launamunur kynjanna stendur í stað. Lágmarkslaun eru allt of lág, vinnuvikan of löng, atvinnuleysi of mikið og allt of margir hafa tekið á sig kjaraskerðingar í kjölfar efnahagshrunsins. Það skýtur skökku við að þetta séu afleiðingar hins gengdarlausa góðæris - að réttindum hafi verið fórnað fyrir forréttindi. Sameiginlegir sjóðir voru tæmdir í nafni frjáls- og einstaklingshyggju, skammtímagróða og áhættufíknar. Allt hefur þetta gríðarleg áhrif á líf og líðan fólksins í landinu og því er brýnt að tekið verði á málum af skörugleik.

Á sama tíma getum við þakkað fyrir margt. Fyrst og fremst eigum við að vera þakklát fyrirrennurum okkar, fólkinu sem barðist fyrir launum og réttindum sem þykja sjálfsögð í dag. Fólkinu sem stofnaði verkalýðsfélögin, sem benti á misréttið, sem barðist og breytti. Þetta er fólkið sem við eigum að taka okkur til fyrirmyndar, fólk með eldheitar hugsjónir og kraft til að fylgja þeim eftir af einurð. Við eigum að verða komandi kynslóðum sambærilegar fyrirmyndir, vera kjörkuð og kraftmikil, benda á það sem má bæta og laga það sem hægt er að laga.

Verkalýðsbaráttan líður aldrei undir lok. Hennar vegna eru núverandi réttindi til staðar og hennar vegna verða framfarir. Ekki bara fyrir einstaklinga eða stéttir - heldur fyrir samfélagið allt. Gangan hefst í dag kl. 13.00 frá Hlemmi. Stöndum saman, göngum saman og vinnum saman að bættu samfélagi.

 




Skoðun

Sjá meira


×