Viðskipti innlent

Næstum 100 ára kona tapaði ævisparnaðinum á Landsbankanum

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Tæplega hundrað ára kona á eynni Guernsey tapaði stórum hluta ævisparnaðarins eftir bankahrunið þar sem peningarnir voru í vörslu Landsbankans. Íbúar á Guernsey njóta ekki sömu verndar og aðrir breskir ríkisborgarar sem hafa fengið tap sitt á Icesave greitt að fullu.

Landsbankinn keypti Cheshire viðskiptabankann í Guernsey í ágúst 2006 og breyttist hann í kjölfarið í Landsbankinn Guernsey. Í heimildarmynd Gunnars Sigurðssonar leikstjóra um íslenska bankahrunið, „Maybe I should Have" sem frumsýnd verður eftir viku eru viðtöl við sparifjáreigendur á Guernsey sem geymdu sparifé sitt í Landsbankanum á eynni. Ekki er um að ræða viðskiptavini á Icesave-reikningunum í Bretlandi, en þeir fengu allt sitt greitt frá breska ríkinu.

Guernsey er í sjálfstæðu konungssambandi við bresku krúnuna en heyrir að öðru leyti ekki til Bretlands og er ekki í Evrópusambandinu. Stjórn eyjunnar er í höndum landstjóra sem er tilnefndur af Bretlandsdrottningu. Lagareglur sem þar gilda eru ekki alfarið þær sömu og í Bretlandi. Breska ríkið sá sig því ekki knúið til að greiða þessum sparifjáreigendum tap sitt, þar sem þeir eru ekki Bretar í þröngum skilningi. Viðskiptavinir Landsbankans í Guernsey hafa fengið helming greiddan til baka frá þrotabúi bankans, þ.e skilanefndinni, en eftir stendur að þetta fólk tapaði helmingi sparifjár síns vegna Landsbankans. Það er eðlilega svekkt og miður sín af þessum sökum. Elisabeth Castle er 98 ára gömul, hún var í góðri trú og fékk ekki tilkynningu fyrr en eftir á að Ísledingar hefðu keypt hverfisbankann hennar. Lynn Bewe hafði geymt allan sparnað sinn, "öryggisnetið" eins og hún orðar það á reikningi í Landsbankanum. Helmingurinn er farinn og óvíst hvort nokkuð fáist til baka.












Fleiri fréttir

Sjá meira


×