Handbolti

Kiel Þýskalandsmeistari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel.
Alfreð Gíslason, þjálfari Kiel. Nordic Photos / Bongarts
Kiel varð í dag Þýskalandsmeistari í handbolta eftir sigur á Grosswallstadt á útivelli í lokaumferð þýsku úrvalsdeildarinnar í dag, 27-23.

Aron Pálmarsson skoraði ekki fyrir Kiel að þessu sinni en hann hefur nú á nokkrum dögum unnið tvo af stærstu titlum handboltaheimsins, Evrópumeistaratitil og þýska meistaratitilinn. Aron er nítján ára og á sínu fyrsta ári með Kiel.

Alfreð Gíslason er þjálfari Kiel og annað árið í röð sem félagið verður meistari undir hans stjórn. Þetta er sjötta árið í röð sem Kiel vinnur þýska titilinn og í sextánda skiptið alls.

Einar Hólmgeirsson lék með Grosswallstadt í fyrri hálfleik en náði ekki að skora, né heldur Sverre Jakobsson. Aron kom einnig aðeins við sögu í fyrri hálfleik.

Bæði lið fögnuðu mjög í leikslok enda tókst Grosswallstadt að tryggja sér sæti í Evrópukeppni á næstu leiktíð þar sem að Füchse Berlin tapaði sínum leik í dag.

Grosswallstadt og Füchse Berlin eru bæði með 40 stig en síðarnefnda liðið tapaði fyrir Gummersbach í dag, 29-27.

Róbert Gunnarsson lék sinn síðasta leik fyrir Gummersbach í dag en hann skoraði þrjú mörk. Hann er á leið til Rhein-Nekcar Löwen. Rúnar Kárason skoraði eitt mark fyrir Füchse Berlin en Dagur Sigurðsson er þjálfari liðsins.

Hamburg varð í öðru sæti deildarinnar, einu stigi á eftir Kiel. Flensburg varð í þriðja sæti, Rhein-Neckar Löwen því fjórða og Gummersbach í fimmta.

Düsseldorf og Minden féllu úr deildinni en Dormagen þarf að fara í umspil um sæti í deildinni á næstu leiktíð.

Önnur úrslit dagsins:



Balingen - Hamburg 25-35


Dormagen - Düsseldorf 32-35

Sturla Ásgeirsson skoraði eitt mark fyrir Düsseldorf.

Minden - Magdeburg 25-32

Gylfi Gylfason skoraði þrjú mörk fyrir Minden. Ingimundur Ingimundarson spilaði ekki í dag.

Lemgo - Göppingen 32-30

Vignir Svavarsson komst ekki á blað hjá Lemgo. Logi Geirsson lék ekki með liðinu.

Melsungen - Lübbecke 26-28

Þórir Ólafsson skoraði sex mörk fyrir Lübbecke og Heiðmar Felixsson skoraði þrjú.

Rhein-Neckar Löwen - Wetzlar 36-27

Snorri Steinn Guðjónsson skoraði tvö mörk fyrir Löwen og Snorri Steinn Guðjónsson eitt. Guðjón Valur Sigurðsson er meiddur.

Hannover-Burgdorf - Flensburg 29-34

Hannes Jón Jónsson skoraði þrjú mörk fyrir Hannover-Burgdorf. Alexander Petersson skoraði þrjú mörk fyrir Flensburg.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×