Erlent

Leit að fólki á tveimur hamfarasvæðum

Björgunarfólk leitar í nágrenni eldfjallsins Merapi.nordicphotos/AFP
Björgunarfólk leitar í nágrenni eldfjallsins Merapi.nordicphotos/AFP
Síðdegis í gær var vitað um rúmlega 270 manns sem látist höfðu af völdum flóðbylgjunnar sem lenti á Indónesíu. Eldgosið, sem hófst á þriðjudag annars staðar í eyjaklasanum, hafði kostað um þrjátíu manns lífið.

Susilo Bambang Yudhoyono, forseti Indónesíu, flýtti sér heim frá Víetnam, þar sem hann var í opinberri heimsókn.

Í gær tókst loks að lenda þyrlum með hjálpargögn á Mentawai-eyjum, þar sem mikið tjón varð af völdum flóðbylgjunnar aðfaranótt þriðjudags. Flóðbylgjunni var hrundið af stað af jarðskjálfta, sem mældist 7,2 stig, og varð skammt undan strönd Súmötru, sem er ein af stærstu eyjum Indónesíu.

Á þriðjudaginn, aðeins fáeinum klukkustundum eftir jarðskjálftann, hófst síðan gosið í eldfjallinu Merapi á eyjunni Jövu. Ekki er þó talið að jarðskjálftinn tengist eldgosinu neitt, enda er langt á milli.

Vísindamenn höfðu hins vegar varað við gosinu fyrir fram og íbúar í hlíðum fjallsins höfðu verið fluttir burt. Nokkuð létti á þrýstingi í fjallinu eftir að gosið hófst, en enn er þó hætta á að mikið sprengigos hefjist sem gæti valdið miklu tjóni.

Meðal þeirra sem fundust látnir í hlíðum fjallsins var Maridjan, aldraður maður sem hefur gegnt því hlutverki að gæta anda fjallsins. Hann hefur stjórnað helgi­athöfnum sem felast í því að kasta hrísgrjónum og blómum niður í gíg fjallsins í því skyni að friða andana. Hann neitaði að yfirgefa svæðið þegar það var rýmt, og sagðist vera fastbundinn þessu starfi sínu og geta því hvergi farið.

Nafn fjallsins, Merapi, þýðir „eldfjall“ á íslensku. Þetta er eitt virkasta eldfjall heims og hefur gosið margoft síðustu tvær aldirnar, síðast árið 2006. Árið 1994 kostaði gos úr fjallinu 60 manns lífið en árið 1930 létust nærri 1.300 manns vegna hamfaranna í fjallinu.

Á Indónesíu eru nærri 130 virk eldfjöll, sem grannt er fylgst með.

Meira en ellefu þúsund manns búa í hlíðum fjallsins. Flestir þeirra höfðu verið fluttir á öruggari slóðir, en í gær voru margir þeirra á leiðinni til baka til að huga að eignum sínum, þrátt fyrir að hættan hafi engan veginn verið liðin hjá. gudsteinn@frettabladid.is



Fleiri fréttir

Sjá meira


×