Viðskipti innlent

Aðgerðir stjórnvalda miðast ekki við að hér býr vestræn þjóð

Hvorki sértækar né almennar aðgerðir stjórnvalda vegna skuldavanda heimilanna, virðast gera ráð fyrir því að hér búi vestræn þjóð með vestræn neysluviðmið.

Fram kemur í skýrslu Kjartans Brodda Bragasonar fyrir Neytendasamtökin að allt að 30% heimila landsins séu í verulegum skuldavandræðum. Í skýrslu Seðlabankans um skuldastöðu heimilanna kom fram að hátt í áttatíu prósent þeirra séu með viðráðanlega greiðslubyrði.

Í skýrslu Kjartans Brodda er sérstök athygli vakin á því hvað Seðlabankinn telji viðráðanlega greiðslubyrði. Tekin eru þrjú dæmi til skýringar:

Tveggja manna heimili með 300 þúsund í ráðstöfunartekjur á mánuði, 120 þúsund í greiðslubyrði lána og 180 þúsund krónur til að lifa af telst með viðráðanlega greiðslubyrði.

Það sama gildi hins vegar um sex manna heimili með sömu ráðstöfunartekjur og greiðslubyrði. Það er að segja; ekki er tekið tillit til fjölda fólks á heimilinu, þegar skuldavandinn er metinn.

Hins vegar teljist einstæðingur með 650 þúsund krónur í ráðstöfunartekjur og 390 þúsund í afborganir vera með þunga greiðslubyrði. Þó hefur sá maður 260 þúsund krónur milli handanna á mánuði eftir afborganir lána.

Erfitt er að sjá að þessar upplýsingar geti nýst til pólitískra ráðstafana, segir skýrsluhöfundur en gera má ráð fyrir að aðgerðir stjórnvalda í þágu skuldsettra heimila byggi að miklu leyti á greiningu Seðlabankans.

Í skýrslunni segir að sértækar og almennar aðgerðir vegna skuldavanda landsmanna virðist ekki gera ráð fyrir að hér búi vestræn þjóð með vestræn neysluviðmið.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×