Innlent

Jóhanna: Ekki vantraust á ríkisstjórnina

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, segir fráleitt að túlka niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem vantraust á ríkisstjórnina. Þetta kom fram í máli ráðherra á Alþingi í dag.

Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra, fór yfir stöðuna í Icesave málinu á Alþingi í dag.

Í máli Jóhönnu kom meðal annars fram að fráleitt sé að túlka niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslunnar sem vantraust á ríkisstjórnina. Margir stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hefðu þannig greitt atkvæði gegn Icesave lögunum.

Jóhanna sagði að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi ekki komið á óvart hins vegar sé enn ósamið í Icesave deilunni. Mikilvægt sé að halda viðræðum áfram og umtalsvert hafi þokast í samkomulagsátt í síðustu viku. Jóhanna sagði ennfremur að Hollendingar og Bretar hafi samþykkt að halda viðræðum áfram.

Jóhanna gagnrýndi stjórnarandstöðuna fyrir að vilja stjórna málinu án þess að taka á sig ábyrgð. Ríkisstjórnin muni þó áfram leita eftir eftir samstöðu í málinu. „En sá sem lengst vill ganga eða hægast fara má aldrei ráða ferðinni," sagði Jóhanna.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×