Erlent

Kínverjar sauma enn að Japönum

Óli Tynes skrifar
Fer ekki vel á því með þessari frétt að hafa mynd af Torgi hins himneska friðar í Peking?
Fer ekki vel á því með þessari frétt að hafa mynd af Torgi hins himneska friðar í Peking?
Tvö japönsk strandgæsluskip tóku fyrr í þessum mánuði kínverskt fiskiskiskip að veiðum við eyjar sem Japan og Kína deila um eignarhald á.

Áhöfn fiskiskipsins var sleppt en skipstjóranum haldið eftir. Japanar sökuðu hann um að hafa siglt utan í gæsluskipin af ásettu ráði.

Kínverjar urðu æfir af reiði. Þeir settu afmarkað viðskiptabann á málma sem eru japönum nauðsynlegir við framleiðslu á raftækjum.

Þeir hótuðu frekari refsiaðgerðum og handtóku fjóra Japana í Kína. Mennirnir eru sakaðir um njósnir.

Japanar slepptu loks skipstjóranum fyrir helgi, en það dugar ekki Kínverjum. Nú heimta þeir afsökunarbeiðni og skaðabætur.

Því hafna Japanar algjörlega. Fjölmiðlar í Japan hafa gagnrýnt að skipstjóranum skyldi sleppt. Þeir telja að Kínverjar líti á það sem veikleikamerki og ætli nú að láta kné fylgja kviði.

Í Japan finnst mönnum nóg komið af ofsa og yfirgangi Kínverja.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×