Erlent

Yfir þrjú hundruð látnir í Indónesíu

Mörghundruð manns hafa farist í tvennskonar náttúruhamförum samtímis í Indónesíu, annarsvegar flóðbylgju og hinsvegar eldgosi.

Vitað er að yfir þrjúhundruð hafa látið lífið og yfir fimmhundruð er saknað eftir náttúruhamfarirnar í Indónesíu. Talið er næsta víst að þeir sem saknað er séu látnir. Björgunarsveitir eru enn að berjast við að komast á slysavettvang á eyjunum sem urðu fyrir þriggja metra hárri flóðbylgju eftir 7,7 stiga jarðskjálfta á hafsbotni.

Flóðbylgjan sópaði heilu þorpunum með sér á haf út. Þúsundir manna misstu einnig heimili sín. Loftmyndir af ströndina sýna að þótt flóðbylgjan sé löngu gengin yfir liggur ennþá vatn yfir stórum svæðum, sem vart verða byggð aftur í bráð.

Flóðbylgjan gekk yfir litlar úteyjar en á eynni Jövu hefur eldfjallið Merapi orðið minnst þrjátíu manns að bana og eyðilagt þúsundir heimila. Þrátt fyrir aðvaranir vísindamanna fyrir mörgum dögum um að eldgos væri yfirvofandi þrjóskuðust margir íbúanna við að yfirgefa heimili sín. Fjölmennar byggðir eru yfirleitt í hlíðum eldfjalla í Indónesíu og þrátt fyrir mikið manntjón á undangengnum áratugum eru ótrúlega margir sem neita að forða sér.

Fólkið sem lét lífið dó þegar sjóðandi heit gjóska helltist yfir það. Margir fleiri eru auk þess hræðilega brenndir. Þykkt öskulag liffur þegar yfir mörgum þorpum og haft á orði að þetta líkist einna helst borginni Pompei sem hvarf undir ösku eftir gos í Vesúvíusi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×