Erlent

Dánartíðni í Moskvu hefur tvöfaldast

Óli Tynes skrifar

Í venjulegu árferði deyja um 350 manns á dag í Moskvu. Nú eru þeir yfir sjöhundruð og öll líkhús borgarinnar eru full.

Rússneska veðurstofan segir að samkvæmt sögulegum heimildum sé þetta versta hitabylgja sem gengið hafi yfir landið í eittþúsund ár.

Hitinn hefur verið um og yfir 40 stig á Celsius svo vikum skiptir. Meðalhiti á sumrin er annars 24 gráður.

Hundruð skógarelda hafa kviknað í skrælnuðu landinu þar af einir fjörutíu umhverfis Moskvu.

Hitinn og þykkur reykjarmökkurinn gerir lífið í höfuðborginni nær óbærilegt. Fólk þolir ekki við úti vegna reyksins, en það er lítið betra á heimilum þess.

Fæstar íbúðir eru loftkældar þannig að hitinn þar er eins og í bakarofni. Svo verður auðvitað að loka öllum gluggum og troða grisju meðfram til þess að halda reyknum úti. Það er ekki þægilegt líf í fjörutíu stiga hita.

Það hefur sýnt sig að yfirvöld hafa hvergi nærri þann mannskap eða tækjabúnað sem þarf til þess að hafa hemil á eldunum.

Þúsundir hermanna og sjálfboðaliða hafa að vísu verið sendir til að hjálpa tíuþúsund slökkviliðsmönnum sem berjast við eldana.

En áhöldin sem þeir hafa með sér eru í mörgum tilfellum ekki merkilegri en vatnsfötur.

 

 

 

 










Fleiri fréttir

Sjá meira


×