Viðskipti innlent

Icelandtilboð hækkaði verð skuldabréfa Landsbankans

Verð á skuldabréfum gamla Landsbankans hefur hækkað í vikunni úr genginu 9 og upp í 11. Þetta þýðir að alþjóðamarkaðurinn telur að nú fáist 11% upp í kröfurnar í þrotabú bankans. Nær öruggt er að fréttin um milljarðs punda tilboð Malcolm Walker í Iceland lágvöruverslunarkeðjuna ráði hér ferðinni.

Verð yfir svokölluð varin skuldabréf í þrotabúum íslensku bankanna eru birt á vefsíðunni Keldan.is. Þar hefur gengi í skuldabréf Landsbankans lengi staðið í 9 sem þýddi að markaðurinn bjóst við að 9 aurar fengjust upp í hverja krónu af nafnvirði bréfanna.

Efnt var til alþjóðlegs uppboðs á skuldabréfum íslensku bankanna þriggja, Glitnis, Kaupþings og Landsbankans skömmu eftir hrunið haustið 2008, til þess að hægt væri að gera upp skuldatryggingasaminga á þeim.

Þá var gengi bréfanna í Landsbankanum ákveðið 1,25. Tekið skal fram að gengið mátti ekki fara neðar en 1 eða 1% af nafnvirði samkvæmt reglum uppboðanna. Þetta verð hefur síðan þokast upp á við á þeim tíma sem liðinn er og meir hefur komið í ljós hverjar endurheimturnar verða í þrotabúið

Eftir að síðasti Icesave samningurinn við Breta og Hollendinga var felldur í þjóðaratkvæðagreiðslu snemma árs tóku þessi skuldabréf Landsbankans að hækka verulega. Gengið komst í 11 í apríl og fór hæst í 12 skömmu síðar. Það hafði svo lækkað niður í 9 þegar fréttin um tilboðið í Iceland keðjuna barst.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×