Viðskipti innlent

Heildarviðskipti með hlutabréf 99 milljónir á dag

Kauphöllin.
Kauphöllin.

Heildarviðskipti með hlutabréf í marsmánuði námu tæpum 2.279 milljónum eða 99 milljónum á dag. Þessu til samanburðar var veltan með hlutabréf í febrúarmánuði tæpar 1.777 milljónir, eða 89 milljónir á dag. Mest voru viðskipti með bréf Føroya Banka (FO-BANK) 1.019 milljónir og með bréf Marels (MARL) 692 milljónir.

Á Aðalmarkaði Kauphallarinnar var Saga Capital með mestu hlutdeildina 45,0% (58,3% á árinu), Arion Banki með 13,1% (10,7% á árinu) og Íslandsbanki með 10,3% (7,6% á árinu).

Úrvalsvísitalan (OMXI6) hækkaði um 7,5% milli mánaða og stendur nú í 945,2 stigum. Af atvinnugreinavísitölum hækkaði vísitala heilbrigðisgeira (IX35PI) mest eða 11,3%.

Heildarviðskipti með skuldabréf námu rúmum 249 milljörðum í síðasta mánuði sem samsvarar 10,8 milljarða veltu á dag. Til samanburðar nam veltan í febrúarmánuði 9,9 milljörðum á dag. Mest voru viðskipti með lengri flokka ríkisbréfa, RIKB 25 0612 46,7 milljarðar og þá með RIKB 19 0226 41,3 milljarðar. Alls námu viðskipti með ríkisbréf 183,5 milljörðum en viðskipti með íbúðarbréf námu 58,5 milljörðum.

Ávöxtunarkrafa þriggja mánaða óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI3MNI) lækkaði um 140 punkta í mánuðinum og stendur nú í 6,96%. Ávöxtunarkrafa eins ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI1YNI) lækkaði um 107 punkta og er núna 6,09% og krafa fimm ára óverðtryggðu vísitölunnar (OMXI5YNI) lækkaði um 52 punkta og stendur í 6,83%.

Í marsmánuði var MP Banki með mestu hlutdeildina 31,1% (33,1% á árinu), Íslandsbanki með 24,7% (23,3% á árinu) og NBI með 21,2% (19,0% á árinu).








Fleiri fréttir

Sjá meira


×