Nicole Sheridan, sem lék Aðþrengdu eiginkonuna Edie Britt í samnefndum sjónvarpsþáttum, kærði í gær Marc Cherry, höfund þáttanna. Kæran var lögð fram í Los Angeles. Þar ásakar hún Cherry um að slá sig í andlit og höfuð í september 2008 eftir að hún bað hann um að endurskoða nokkrar handritslínur með sér. Stuttu seinna lét hann persónuna Edie Britt skyndilega deyja úr raflosti eftir bílslys og Sheridan var rekin.
Hún fer fram á 20 milljónir dollara, um tvo og hálfan milljarð króna, vegna árásarinnar og tapaðra tekna. Í kærunni kemur einnig fram að Cherry hafi yfirleitt verið hundleiðinlegur við leikhópinn og hafi meðal annars óskað þess upphátt að leikkonan Teri Hatcher myndi verða fyrir bíl þegar hún kvartaði yfir honum við yfirmenn ABC-sjónvarpsstöðvarinnar.
Þeir sem vilja rifja upp dauða Edie Britt geta skoðað stiklu hér á YouTube.