Viðskipti innlent

Mun birta samninga við stjórnir bankanna

Elín Jónsdóttir er forstjóri Bankasýslu ríkisins.
Elín Jónsdóttir er forstjóri Bankasýslu ríkisins.

Bankasýsla ríkisins mun gera samninga við stjórnir þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið verður ráðandi hluthafi í um markmið í rekstri og verða þessir samningar birtir innan tólf mánaða frá gerð þeirra.

Bankasýsla ríkisins fer með eignarhald ríkisins á fjármálafyrirtækjum. Fer stofnunin t.d með ráðandi eignarhlut í Landsbankanum, fimm prósenta hlut í Íslandsbanka og þrettán prósenta hlut í Arion banka.

Ríkið hefur sett sér sérstaka eigendastefnu sem snýr að markmiðum ríkisins með eignarhlut sínum í fjármálafyrirtækjum og verður það hlutverk Bankasýslu ríkisins meðal annars að framfylgja þeirri stefnu. Forstjóri Bankasýslunnar, Elín Jónsdóttir, lögfræðingur og fyrrverandi forstöðumaður Arev verðbréfa, kynnti þetta á sérstökum fundi í Þjóðmenningarhúsinu í síðustu viku þar sem fjallað var m.a um breytingar á regluverki um fjármálamarkaðinn.

Bankasýsla ríkisins mun gera sérstaka samninga við stjórnir þeirra fjármálafyrirtækja sem ríkið verður hluthafi í um markmið í rekstri þeirra.

„Þessi markmið geta þá verið mælanleg að einhverju leyti og hægt verður síðan að fara yfir hversu vel hefur tekist að framfylgja stenu og markmiðum ríkisins," sagði Elín Jónsdóttir. Hún sagði að úrdrættir úr þessum samningum yrðu birtir innan tólf mánaða frá gerð þeirra. „Gera má ráð fyrir að slíkir samningar verði gerðir þegar ný stjórn hefur verið skipuð í Landsbanka Íslands og þá upplýsingar gefnar um þau markmið tólf mánuðum síðar," sagði Elín.














Fleiri fréttir

Sjá meira


×