Viðskipti innlent

Fréttaskýring: Vísbendingar um að kreppu sé lokið

Friðrik Indriðason skrifar
  • Fleiri samningar og hærra verð á fasteignamarkaði
  • Kreditkortavelta heimila eykst um 7,3% milli ára
  • Nýskráningar bíla aukast um 25% milli ára
  • Utanlandsferðum Íslendinga fjölgar um fjórðung

Þetta eru fjórar fyrirsagnir á fréttum sem birst hafa á viðskiptasíðu vísir.is í morgun. Samkvæmt þeim eru vísbendingar um að kreppunni á Íslandi sé lokið og uppsveiflan hafin að nýju. Þetta rímar nokkuð við upplýsingar sem Hagstofan birti í vikunni um að 1,2% hagvöxtur hefði orðið milli annars og þriðja ársfjórðungs í ár.

Hvað tölur Hagstofunnar varðar hafa sérfræðingar tekið þeim með miklum fyrirvara enda reyndust fyrstu tölur Hagstofu um hagvöxt á fjórða ársfjórðungi síðasta árs og þeim fyrsta í ár langt frá því réttar. Í stað vaxtar var um verulegan samdrátt að ræða þegar þessar tölur voru endurskoðaðar. Þar að auki má nefna að samkvæmt alþjóðlegum stöðlum telst kreppu ekki lokið nema hagvöxtur sé tvo ársfjórðunga í röð.

Fasteignamarkaðurinn á Íslandi hefur verið meir og minna botnfrosinn frá hruninu haustið 2008. Tölur um fjölda kaupsamninga á þessum markaði undanfarnar vikur, samkvæmt Þjóðskrá Íslands, benda hinsvegar til að hann sé smátt og smátt að þiðna og verð á íbúðahúsnæði að hækka töluvert. Þannig kemur fram í fréttinni um fasteignamarkaðinn að meðalverð á kaupsamning í vikunni hafi verið 32 milljónir kr. á móti 27 milljónum kr. sem er meðalverðið á viku síðustu þrjá mánuði.

Greiðslukortavelta gefur góða mynd af þróun einkaneyslu sem aftur er mælikvarði á hvort hagkerfi sé í upp- eða niðursveiflu. Raunar gerir Seðlabankinn ráð fyrir því í nýjustu hagspá sinni að hagvöxtur verði knúinn áfram að miklu leyti af einkaneyslu á næstu ársfjórðungum. Hinsvegar ber að geta þess hvað kortaveltuna varðar að ef tekið er tillit til verðbólgu er um 2,8% raunlækkun að ræða. Á móti kemur að þessi raunlækkun hefur yfirleitt mælst á bilinu 5-7% hingað til.

Innflutningur á bílum gefur oft merki um hvort hagkerfið sé í uppsveiflu eða ekki. Nýskráningar á bílum hafa tekið mikinn kipp á seinni hluta ársins og á fyrstu 11 mánuðum ársins hefur þeim fjölgað um 25% miðað við sama tímabil í fyrra.

Enn ein vísbendingin um batnandi hag landsmanna eru auknar utanlandsferðir en í nóvembermánuði fjölgaði þessum ferðum um fjórðung miðað við sama mánuð í fyrra. Alls fóru tæplega 25 þúsund Íslendingar utan í nóvember sem svarar til um 8% þjóðarinnar.

Við þetta má svo bæta fyrirsögn á frétt nú eftir hádegið en hún hljóðar svo: „Velta í dagvöruverslun eykst um 3,3% milli ára."




















Tengdar fréttir

Utanlandsferðum Íslendinga fjölgar um fjórðung

Nýjar tölur frá Ferðamálastofu eru til marks um að stöðugt fleiri Íslendingar láta undan útþrá sinni og halda erlendis. Þannig héldu mun fleiri Íslendingar utan nú í nóvember en á sama tíma í fyrra, eða um 24,6 þúsund í nýliðnum mánuði á móti 19,5 þúsund í nóvember fyrra. Þetta jafngildir aukningu upp á ríflega fjórðung.

Fleiri samningar og hærra verð á fasteignamarkaði

Fjöldi þinglýstra kaupsamninga á höfuðborgarsvæðinu 3. desember til og með 9. desember var 81. Þetta er nokkuð meiri fjöldi samninga en nemur meðaltali síðustu 12 vikna sem er 70 samningar á viku.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×