Viðskipti innlent

Utanlandsferðum Íslendinga fjölgar um fjórðung

Nýjar tölur frá Ferðamálastofu eru til marks um að stöðugt fleiri Íslendingar láta undan útþrá sinni og halda erlendis. Þannig héldu mun fleiri Íslendingar utan nú í nóvember en á sama tíma í fyrra, eða um 24,6 þúsund í nýliðnum mánuði á móti 19,5 þúsund í nóvember fyrra. Þetta jafngildir aukningu upp á ríflega fjórðung.

Fjallað er um málið í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka. Þar segir að talningar Ferðamálastofu nái yfir allar brottfarir gesta frá landinu um Leifsstöð en stofnunin sendi frá sér fréttatilkynningu um þetta í gær.

Þessi aukning á utanferðum landans er í takti þá þróun sem verið hefur síðasta árið. Þannig hefur stöðug fjölgun átt sér stað á brottförum Íslendinga erlendis m.v. sama tíma fyrir ári allt frá því í nóvember í fyrra, þó að aprílmánuði undanskildum þegar eldgosið í Eyjafjallajökli lét til sín taka og tafði verulega fyrir flugsamgöngum.

Frá áramótum talið hefur brottförum Íslendinga fjölgað um 14,7% frá sama tímabili í fyrra en þó er ljóst að enn er langt í land að jafn margir Íslendingar haldi erlendis og tíðkaðist fyrir kreppu, sem eðlilegt er miðað við það mikla fjárhagslega högg sem landsmenn urðu fyrir og þróun gengis. T.a.m. eru brottfarir Íslendinga erlendis á fyrstu ellefu mánuðum ársins rúmlega 35% færri en á sama tíma á hinu mikla einkaneysluári 2007, eða um 273 þúsund á móti 423 þúsundum.

Skýringu þessarar aukningar má líklegast einna helst rekja til aukins kaupmáttar Íslendinga á erlendri grundu á sama tíma vegna hækkunar á nafngengi krónunnar, enda hefur fjárhagsstaða heimila vart farið batnandi ef tekið er mið af þróun á kaupmætti ráðstöfunartekna sem og ástandinu í atvinnulífinu, að því er segir í Morgunkorninu.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×