Erlent

Fidel Castro styður Ísraelsríki

Óli Tynes skrifar
Fidel Castro.
Fidel Castro.

Fidel Castro fyrrverandi forseti Kúbu varði tilverurétt Ísraelsríkis í viðtali við bandaríska tímaritið The Atlantic.

Hann ávítaði einnig Mahmoud Ahmadinejad forseta Írans. Sagði að hann verði að skilja ótta gyðinga um örlög sín í ljósi sögunnar. Íranar ættu að skilja afleiðingarnar af trúarlegum andsemetisma.

Castro var svosem ekkert yfir sig hrifinn af hægri stjórninni í Ísrael, en stuðningur hans við þjóðina var einlægur.

Jeffrey Goldberg blaðamaður The Atlantic byrjaði viðtalið á því að spyrja Castro hvort hann teldi að Ísrael ætti tilverurétt.

„Án nokkurs vafa," sagði forsetinn.

Hann hélt áfram og sagði; „Ég held að engir hafi verið rægðir jafn mikið og gyðingar. Miklu meira en múslimar. Þeir eru rægðir miklu meira en múslimar vegna þess að þeim er kennt um allt. Enginn kennir múslimum um neitt."

Castro segir að í 2000 ár hafi gyðingar mátt þola skelfilegt einelti og fjöldamorð. Hann furðar sig á að þeir skuli hafa staðið þetta allt af sér. Hann telur að menning þeirra og trú hafi haldið þeim saman sem þjóð.

„Líf gyðinga hefur verið miklu erfiðara en okkar. Það er ekkert til sem hægt er að bera saman við helförina," segir hinn aldni leiðtogi.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×