Erlent

Óeirðir vegna seinagangs við matvæladreifingu

Óli Tynes skrifar
Haítí: barist um björgina.
Haítí: barist um björgina. Mynd/AP

Helsta ástæðan fyrir því að dreifing matvæla gengur of hægt er margir flöskuhálsar. Sá fyrsti er á flugvellinum í Port au Prince sem annar tæpast þeim flugvélum sem um hann fara.

Þar við bætist að skortur er á flutningabílum og að vegakerfið er illa farið. Og þar bætist enn við að margir flutningabílarnir komast ekki á leiðarenda. Hópar manna ráðast á þá um leið og þeir koma innfyrir borgarmörkin.

Bílarnir eru opnaðir og svo er slegist um matinn sem í þeim er. Þetta hefur orðið til þess að Bandaríkjamenn eru farnir að varpa matvælum í fallhlífum úr flutningavélum.

Þyrlur eru einnig notaðar til þess að flytja mat og vatn á fyrirfram ákveðna staði.

Þá má ekki gleyma því að fjöldi þeirra sem þurfa aðstoð er gríðarlegur. Það er verið að tala um tvær eða þrjár milljónir manna.

Það háir því þessu starfi mjög að margir eru orðnir svo hungraðir að skipuleg úthlutun er erfið. Hvarvetna kemur til slagsmála og pústra.

Forseti ólympíunefndar Haítís hefur tekið virkan þátt í matvæladreifingunni. Hann sagði við Sky fréttastofuna að ef ástandið skánaði ekki fyrir föstudag yrðu stórfelldar óeirðir. -Það get ég sagt með hundrað prósent vissu, sagði hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×