Innlent

Aftur komin í björgunarstarf

Mynd/Anton Brink

Jóhanna Sigurðardóttir forsætisráðherra segir að ákvörðun forsetans hafi sett marga þætti efnahagslífsins í uppnám. „Við erum aftur komin í björgunarstarf sem við töldum að við hefðum lokið að mestu og við héldum að við gætum farið að einbeita okkur að uppbyggingunni. Nú sjáum við viðbrögð alþjóðasamfélagsins; lánshæfismatið er komið í ruslflokk, vaxtalækkunarferlinu er stefnt í óvissu, áætlun Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og gengisþróuninni er stefnt í óvissu, þetta hefur áhrif á skuldatryggingaálagið og við vitum ekki nema þetta geti haft áhrif á frestun lána frá Norðurlöndunum. Þannig að það er ýmislegt í húfi og nú erum við að fara yfir stöðuna og sjá hvernig hægt verður að bjarga því sem bjargað verður," sagði Jóhanna í samtali við Fréttablaðið í gærkvöldi.

Hún ræddi ekki við forsetann í gær en þau töluðust við í síma að kvöldi mánudagsins. „Hann ætlaði að láta mig vita áður en hann kynnti sína ákvörðun en ég fékk ekki niðurstöðu frá honum fyrr en eftir klukkan ellefu, eftir að hann var búinn að kynna sína ákvörðun."

Hún segist hafa gert forsetanum fullkomna grein fyrir mati sínu og fjármálaráðherra á því hvaða áhrif það hefði ef hann synjaði lögunum staðfestingar. Hann hafi einnig haft undir höndum gögn, unnin af sérfræðingum í stjórnarráðinu, yfirfarin af Seðlabankanum. „Hann hafði mat okkar á þessari stöðu; hvað gæti gerst í framhaldinu og því miður höfum við á síðustu mínútum og klukkustundum séð það allt verða að veruleika. En við vonum að það sé hægt að lágmarka þennan skaða eins og kostur er."

Spurð hvort hún sé staðráðin í að halda áfram störfum segir Jóhanna ekki annað í kortunum núna. „Við þurfum ekki á stjórnarkreppu að halda í augnablikinu." Hún vill ekki svara að svo stöddu hvort ríkisstjórnin fari frá verði lögunum hafnað í þjóðaratkvæðagreiðslu. Hún vill heldur ekki svara hvort hún telji að með ákvörðun sinni hafi forsetinn veikt ríkisstjórnina.

„Ég vil ekki tjá mig um það. Forsetinn hefur þennan rétt, ég dreg hann ekki í efa og við verðum bara að vinna úr þeirri stöðu sem hann hefur sett okkur í."

bjorn@frettabladid.is






Fleiri fréttir

Sjá meira


×