Íranski vísindamaðurinn Sharam Amiri hvarf þegar hann var í pílagrímsferð í Saudi-Arabíu í júní árið 2009.
Þegar hann hvarf starfaði hann við Malek Ashtar háskólann í Teheran, sem hefur sterk tengsl við hina svokölluðu Byltingarverði í Íran.Stjórnvöld í Íran sökuðu Bandaríkjamenn um að hafa rænt Amiri, en þeir vísuðu því á bug.
Í mars á þessu ári var hinsvegar skýrt frá því í bandarískum fjölmiðlum að hann hefði leitað hælis í Bandaríkjunum og væri að aðstoða bandarísku leyniþjónustuna við að grafa undan kjarnorkuáætlun Írans.
Íranska sjónvarpið hefur sýnt myndband af manni sem talar inn í myndavélina og segist vera Amiri. Hann segir að Bandaríkjamenn hafi rænt sér með aðstoð saudi-arabisku leyniþjónustunnar. Ógerlegt er að sannreyna að þetta sé Amiri.
Í dag skýrðu svo írönsk stjórnvöld frá því að Amiri hefði leitað hælis í sendiráði Pakistans í Washington og krafist þess að vera sendur samstundis heim aftur.
Talsmaður pakistanska utanríkisráðuneytisins hefur staðfest að Amiri hafi komið í sendiráðið klukkan hálf sjö í gærkvöldi að Bandarískum tíma.
Talsmaðurinn sagðist ekki vita hvenær Amiri yrði fluttur heim eða hvort pakistönsk yfirvöld kæmu að heimferð hans.