Innlent

Öllum umsækjendum hafnað

Sveitarfélagið er það fjölmennasta á Austurlandi en þar búa rúmlega 4.500 manns. fréttablaðið/vilhelm
Sveitarfélagið er það fjölmennasta á Austurlandi en þar búa rúmlega 4.500 manns. fréttablaðið/vilhelm
Bæjarstjórn Fjarðabyggðar fól í gær bæjarráði að ganga til viðræðna við Pál Björgvin Guðmundsson, útibússtjóra Íslandsbanka á Reyðarfirði og fyrrum fjármálastjóra bæjarins, um að verða næsti bæjarstjóri sveitarfélagsins. Alls höfðu 23 sótt um starfið en af þeim höfðu fimm dregið umsókn sína til baka. Öllum átján umsækjendunum sem eftir stóðu var því hafnað.

„Bæjarráðið tók viðtöl við ákveðna aðila í umsækjendahópnum. Síðan var þetta kynnt fyrir bæjarfulltrúum allra framboða og um þá umsækjendur náðist ekki pólitísk samstaða. Því var öllum hafnað,“ segir Jens Garðar Helgason, oddviti Sjálfstæðisflokksins, en Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur mynduðu meirihluta í kjölfar sveitarstjórnarkosninganna í vor.

Spurður hvers vegna leitað hefði verið til Páls Björgvins segir Jens: „Nafn hans hafði komið upp í umræðunni og menn ákváðu að skoða þann möguleika. Um það var samstaða að ræða við hann.“

Meðal umsækjenda um starfið voru Guðmundur Ingi Gunnlaugsson, bæjarstjóri á Hellu, og Ólafur Áki Ragnarsson sem nýlega lét af störfum sem bæjarstjóri Ölfuss.

Elvar Jónsson, oddviti minnihlutans í bæjarstjórn, segir að Fjarðalistinn hefði getað sætt sig við alla þá umsækjendur sem boðaðir voru í viðtal en í ljósi þess að ekki hefði náðst sátt um neinn þeirra styður Fjarðalistinn það að leita til Páls Björgvins. - mþl



Fleiri fréttir

Sjá meira


×