Erlent

Fágætt eintak af 1984 í Ástralíu

Óli Tynes skrifar
George Orwell.
George Orwell.

Fágætt eintak af fyrstu prentun á bókinni 1984 eftir George Orwell fannst á botninum á pappakassa fullum af bókum sem gefinn var góðgerðarsamtökum í Ástralíu. Bókin var fyrst gefin út árið 1949.

Talsmaður góðgerðarsamtakanna segir að þetta eintak sé einstaklega vel með farið miðað við að bókin er sextíu og eins árs gömul.

Fyrsta upplagið var aðeins 25 þúsund eintök. Bækur úr þeirri prentun seljast því á þúsundir sterlingspunda. Bókin 1984 er nöturleg saga um heim þar sem Stóri Bróðir er allsráðandi og veit um allt sem þegnarnir taka sér fyrir hendur. Orðtakið Big Brother is watching you, er þaðan fengið.

Önnur fræg bók sem Orwell skrifaði, á svipuðum nótum var Animal farm.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×