Viðskipti innlent

Afborganir ríkissjóðs af lánum nema 136 milljörðum

Frá áramótum hafa afborganir af lánum ríkissjóðs numið 136,3 milljörðum kr. og eru þar af 72,8 milljarða kr. vegna innlendra skulda, þá einna helst innlausnar ríkisbréfa sem voru með gjalddaga í mars síðastliðnum.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um greiðsluuppgjör ríkisins fyrir fyrstu átta mánuði ársins. Þar segir að um 63,5 milljarða kr. eru vegna uppkaupa ríkissjóðs á skuldabréfum í evrum sem eru á gjalddaga 2011 og 2012.

Lántökur ríkissjóðs námu alls 267,9 milljörðum kr. og voru innlendar þar af 137,1 milljarður kr. en erlendar 130,8 milljarðar kr. Hvað erlendar lántökur varðar voru um 75,4 milljarða kr. frá samstarfsþjóðum sem hafa það markmið að koma á jafnvægi í efnahagsmálum landsins og eru hluti af áætlun stjórnvalda og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins.

Auk þess gaf ríkissjóður út skuldabréf í evrum fyrir 64 milljarða kr. í tengslum við kaup hans á skuldabréfum Avens B.V.í Lúxemborg sem var stærsti einstaki eigandi krónueigna utan Íslands. Þessi kaup voru gerð með það að leiðarljósi að draga úr áhættu vegna erlendra krónueigna. Bætti ríkissjóður þannig greiðslustöðu sína í Seðlabankanum um 34,5 milljarða kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×