Erlent

Kraftaverk að enginn hafi látið lífið í jarðskjálftanum

John Key, forsætisráðherra Nýja Sjálands, segir það kraftaverki líkast að enginn hafi látið lífið í jarðskjálfta að styrk 7,1 sem skók borgina Christchurch klukkan hálf fimm í morgun. Tveir eru þó alvarlega slasaðir eftir að skorsteinn féll á annan þeirra og hinn er illa skorinn eftir gler. Þá hafa tíu manns til viðbótar leitað sér aðstoðar vegna hjartaáfalls eftir skjálftann.

Vitni lýsa borginni eins og vígvelli eftir jarðskjálftann. Flestir íbúarnir voru sofandi þegar að jarðskjálftinn reið yfir og hlupu um götur á náttfötunum einum klæða. Raflínur, skólp- og vatnslagnir og vegakerfi eru víða í ólagi eftir skjálftann. Íbúar eru hvattir til að sjóða drykkjarvatn þar sem hætta er á að skólp hafi blandast drykkjarvatni þegar leiðslur rofnuðu. Þá hefur vatnsskortur hamlað slökkvistarfi á svæðinu, en eldar kviknuðu víða í húsrústum eftir skjálftann.

Forsætisráðherran segir fólkið afar hrætt og eyðileggingin sé skelfileg. Hann fullvissaði íbúa um að ríkisstjórn landsins myndi styðja við borgina og allt mögulegt yrði gert til að takast á við hamfarirnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×