Lífið

Heldur áfram í lága drifinu

The National sendir loksins frá sér nýja plötu eftir þriggja ára bið. Mynd/Keith Klenowski
The National sendir loksins frá sér nýja plötu eftir þriggja ára bið. Mynd/Keith Klenowski
Beðið hefur verið eftir nýrri plötu frá The National með mikilli eftirvæntingu. Nú er hún loksins á leiðinni, en væntingarnar eru himinháar og það er spurning hvort hljómsveitinni tekst að heilla aðdáendur sína.

New York-hljómsveitin The National sendir frá sér plötuna High Violet 10. maí næstkomandi. Platan fylgir eftir hinni frábæru Boxer sem kom út árið 2007 og kynnti hljómsveitina fyrir miklu stærri áheyrendahópi en hún var vön – lög eins og Fake Empire og Mistaken for Strangers heyrðust í útvarpi um allan heim og The National var allt í einu eitt af stóru nöfnunum á stórum tónleikahátíðum. Það hvílir því mikil pressa á hljómsveitinni – High Violet verður að vera góð.

Hinn 10. mars í ár kom The National fram í kvöldþætti Jimmy Fallon og flutti lagið Terrible Love, sem er upphafslag High Violet. Lagið er nokkuð frábrugðið því sem hljómsveitin var að gera á Boxer, takturinn er annar ásamt andrúmsloftinu. Þegar hlustað er á plötuna heyrist þó að hljómsveitin er fljót að skipta í lága drifið sem einkenndi Boxer; lag númer tvö, Sorrow, er frábær sorgarsöngur sem hefði alveg eins getað komið út á Boxer. Lögin sem fylgja í kjölfarið virðast svo ekki ætla að valda vonbrigðum.

Talandi um andrúmsloft þá var það gríðarlega stór hluti af því sem gerði síðustu plötu góða. Lögin voru keyrð áfram af öflugu ryþmapari og píanói, en sú uppröðun hefði auðveldlega getað orðið ódýrt afrit af Coldplay. Bresku sykurpúðarnir eru hins vegar síðasta hljómsveitin sem manni dettur í hug við hlustun á Boxer og nýju plötuna High Violet. Guði svo lof.

Þegar hljómsveitin Interpol sló í gegn með plötunni Turn on the Bright Lights árið 2002 fylgdu nokkrar hljómsveitir á eftir og tóku misgóð afrit af stílnum. Þar fór fremst í flokki breska hljómsveitin Editors, sem hefur þó reynt að finna eigin stíl í seinni tíð. The National er undir augljósum áhrifum frá Interpol en hefur algjörlega tekist að skapa eigin hljóm á eigin forsendum. High Violet virðist ætla að undirstrika það, en nánast það eina sem hljómsveitirnar tvær eiga sameiginlegt í dag er fagmannlegur trommuleikur og baritón rödd. Spennandi verður að sjá hvernig umheimurinn tekur nýju framlagi The National í maí.

atlifannar@frettabladid.is





Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.