Erlent

Hopp og hí og trallala

Óli Tynes skrifar

Þegar danskir lögreglumenn í smábænum Næstved komu að 34 ára gömlum heimilislausum manni sem hafði lent í smá umferðaróhappi, grunaði þá að ekki væri allt með felldu. Það reyndist rétt. Hann hafði stolið bílnum. Og gekkst greiðlega við því. Hann var hinn kurteisasti og þægilegasti á allan hátt.

Lögreglumennina grunaði líka að hann hefði kannski fengið sér í glas fyrir aksturinn. Sá heimilislausi gekkst greiðlega við því líka. Og hann blés fúslega í áfengismæli. Og hann blés í hann aftur. Og aftur. Og aftur. Lögreglumennirnir vildu nefnilega ekki trúa því að þessi kurteisi og viðræðugóði maður hefði sprengt áfengismælinn. Mælirinn nær ekki nema upp að fjórum prómillum. Og hann fór upp í topp í öll skiptin.

Sören Nielsen talsmaður lögreglunnar sagði í samtali við blaðið Sjællandske nyheder sem er gefið út í Næstved að þeir hefðu aldrei séð annað eins. Maðurinn hlyti að hafa vanið líkama sinn við óheyrilegt áfengismagn fyrst hann var yfirleitt með rænu. Hvað þá að spjalla við lögregluna eins og ekkert væri.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×