Viðskipti innlent

Gríðarleg aukning í útflutningi iðnaðarvara

Oftast nær er álið langstærsti hluti í flokki útfluttra iðnaðarvara en ljóst er að þessi upphæð er mun hærri en það sem að jafnaði er flutt út af áli í hverjum mánuði.
Oftast nær er álið langstærsti hluti í flokki útfluttra iðnaðarvara en ljóst er að þessi upphæð er mun hærri en það sem að jafnaði er flutt út af áli í hverjum mánuði.
Gríðarleg aukning varð í útflutningi iðnaðarvara í mars en alls voru fluttar út slíkar vörur fyrir 30,1 milljarða kr. í mánuðinum og er um að ræða aukningu upp á 52% á föstu gengi frá sama mánuði fyrra árs.

Þetta kemur fram í Morgunkorni greiningar Íslandsbanka þar sem fjallað er um vöruskiptin í mars en þau voru hagstæð um 11,4 milljarða kr. Í Morgunkorninu segir að oftast nær er álið langstærsti hluti í flokki útfluttra iðnaðarvara en ljóst er að þessi upphæð er mun hærri en það sem að jafnaði er flutt út af áli í hverjum mánuði.

Frekari sundurliðun á þessum lið verður ekki birt fyrr en í lok mánaðar þegar Hagstofan birtir lokatölur fyrir vöruskiptin í mars. Þá voru fluttar út sjávarafurðir fyrir samtals 20,4 milljarða kr. í marsmánuði sem er aukning um 3,5% á föstu gengi frá sama mánuði fyrra árs.

Alls voru fluttar út vörur fyrir 52,8 milljarða kr. í marsmánuði. Þetta er mun meiri útflutningur en sést hefur síðustu mánuði en vöruútflutningur hefur numið að meðaltali 42 milljörðum kr. síðustu 3 mánuði. Um er að ræða aukningu um 29% frá sama mánuði fyrra árs á föstu gengi þegar leiðrétt hefur verið fyrir útflutningi skipa og flugvéla.

Vöruinnflutningur var með mesta móti í marsmánuði og nam 41,4 milljarði kr. Þetta er mun meiri innflutningur en hefur verið að meðaltali síðustu 3 mánuði þar á undan en þá voru fluttar inn vörur að meðaltali fyrir 32 milljarða kr. Sé leiðrétt fyrir gengisbreytingum var vöruinnflutningur um 26,5% meiri nú í mars en í sama mánuði í fyrra.

Mun meira var flutt inn af mat-og drykkjarvöru eða alls fyrir samtals 4,6 milljarða kr. sem er aukning um 30% á föstu gengi og þá var flutt inn eldsneyti fyrir 5,3 milljarða kr. sem er aukning um 108% á föstu gengi frá því í sama mánuði fyrir ári síðan.

Miklar sveiflur eru að jafnaði í innflutningi eldsneytis á milli mánaða en í febrúar var flutt inn eldsneyti fyrir 1,5 milljarð kr. Loks voru fluttar inn fjárfestingarvörur fyrir 10,4 milljarða kr. í mars sem er aukning um 200% frá sama mánuði fyrra árs á föstu gengi.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×