Lífið

Hátíð fyrir þroskaða rokkara

Sigurður verður fararstjóri á rokkhátíðina High Voltage Festival sem verður haldin í London í sumar. fréttablaðið/stefán
Sigurður verður fararstjóri á rokkhátíðina High Voltage Festival sem verður haldin í London í sumar. fréttablaðið/stefán
„Þetta er í rauninni klassískt rokk-festival," segir Sigurður Sverrisson. Hann verður fararstjóri í hópferð fyrir um tuttugu íslenska rokkaðdáendur á High Voltage-hátíðina í London sem verður haldin í fyrsta sinn í júlí. Þar ber hæst tónleika Emerson, Lake og Palmer sem er beðið með mikilli eftirvæntingu því rokktríóið heldur upp á fjörutíu ára afmælið sitt með miklu sjónarspili á þessum tónleikum. Á meðal annarra hljómsveita á hátíðinni verða ZZ Top, Heaven & Hell, Uriah Heep, Foreigner, Quireboys, Marillion og Gary Moore.

Sigurður segir hátíðina stórkostlegt tækifæri fyrir þroskaða rokkaðdáendur á öllum aldri. „Þessi bönd hafa fylgt manni frá fermingu. Ég efa að það gefist mörg fleiri tækifæri til að sjá Emerson, Lake og Palmer og mér segir svo hugur að óðum styttist í að Ronnie James Dio (Heaven & Hell) dragi sig í hlé," segir Sigurður. „Það er svo auðvitað frábært að fá tækifæri til að ná á einu bretti mörgum þeirra hljómsveita sem hafa glatt rokkunnendur undanfarna áratugi. Ég hugsa að líta megi á þessa hátíð sem „lokaútkall" á nokkrar hljómsveitir." Meðlimir Heaven & Hell eru nákvæmlega þeir sömu og spiluðu undir merkjum Black Sabbath í íþróttahúsinu við Vesturgötu á Akranesi fyrir um tuttugu árum. Sigurður skipulagði einmitt þá tónleika.

„Þetta verður vonandi ódýrara en síðast. Það voru dýrustu aðgöngumiðar í sögunni. Ég held ég hafi verið í þrjú ár að borga það niður," segir hann.

Miðaverð í hópferðina er 119.900 krónur og nánari upplýsingar má finna hjá ÍT-ferðum eða á sigsve@simnet.is. - fb








Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.