Handbolti

Besta byrjun Strákanna okkar á landsliðsári síðan 1964

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arnór Atlason stekkur hér upp á móti spænsku vörninni í gær.
Arnór Atlason stekkur hér upp á móti spænsku vörninni í gær. Mynd/AFP

Íslenska karlalandsliðið í handbolta vann 30-27 sigur á Spánverjum í gær í undanúrslitum hraðmótsins í Frakklandi og hefur þar með unnið alla fjóra leiki sína á árinu 2010. Strákarnir okkar hafa ekki byrjað landsliðsár betur í heil 46 ár eða síðan að íslenska landsliðið sló í gegn á HM í Tékkóslóvakíu 1964.

Íslenska liðið vann tvo glæsilega sigra á Þjóðverjum í æfingaleikjum í Þýskalandi um síðustu helgi og Portúgalar voru síðan lagðir með tíu marka mun í Laugardalshöllinni á miðvikudagskvöldið. Ísland vann síðan Spán í gær og tryggði sér sæti í úrslitaleiknum á móti Frökkum í dag.

Í öllum fjórum leikjum íslenska liðsins sem hafa allir unnist með þremur mörkum eða meira hefur íslenska liðið skoraði 30 mörk eða meira á sama tíma og mótherjarnir hafa ekki náð að brjóta 30 marka múrinn.

Íslenska karlalandsliðið vann eins og áður sagði einnig fjóra fyrstu leiki sína árið 1964. Liðið vann þá tvo auðvelda sigra á Bandaríkjamönnum í æfingaleikjum á Keflavíkurflugvelli áður en var lagt í hann á HM í Tékkóslóvakíu.

Íslenska liðið vann síðan tvo fyrstu leiki sína á HM í Tékkóslóvakíu, fyrst 16-8 sigur á Egyptum og svo einn glæsilegasta sigur liðsins í sögunni þegar Svíar voru lagðir af velli 12-10. Íslenska liðið tapaði síðan 12-21 fyrir Ungverjum og það stóra tap sá til þess að liðið komst ekki áfram í milliriðilinn.

Þetta er líka aðeins í sjöunda skiptið sem íslenska karlalandsliðið fer taplaust í gegnum fjóra fyrstu leiki ársins en það gerðist síðast árið 1992 og þar á undan árið 1984.

Byrjunin á árinu 1964

32-16 sigur á Bandaríkjunum í æfingaleik (22. febrúar)

32-14 sigur á Bandaríkjunum í æfingaleik (23. febrúar)

16-8 sigur á Egyptalandi á HM (6. mars)

12-10 sigur á Svíþjóð á HM (7. mars)

Byrjunin á árinu 2010

32-28 sigur á Þjóðverjum í æfingaleik (9. janúar)

33-29 sigur á Þjóðverjum í æfingaleik (10. janúar)

37-27 sigur á Portúgal í æfingaleik (13. janúar)

30-27 sigur á Spáni í æfingamóti (16. janúar)

Flestir sigrar í fyrstu fjórum landsleikjum ársins

4 - 1964

4 - 2010

3 - 1970

2 - 2006

2 - 1973

Fæst töp í fyrstu fjórum landsleikjum ársins

0 - 1964 (4 sigrar)

0 - 1972 (2 sigrar, 2 jafntefli)

0 - 1973 (2 sigrar, 2 jafntefli)

0 - 1974 (3 sigrar, 1 jafntefli)

0 - 1984 (3 sigrar, 1 jafntefli)

0 - 1992 (3 sigrar, 1 jafntefli)

0 - 2010 (4 sigrar)








Fleiri fréttir

Sjá meira


×