Erlent

Kossaflens á Ítalíu kostar 80 þúsund krónur í sekt

Ferðamenn á leið um Ítalíu ættu að hafa varann á sér. Í landinu gilda ein 150 boð og bönn sem engir aðrir en innfæddir þekkja en við þessum bönnum liggja oft háar fésektir. Meðal annars liggur há sekt við kossaflensi í bíl.

Fyrir þá sem ætla sér að heimsækja eyjuna Capri er gott að vita að bannað er að ganga um hellulagðar götur eyjunnar á tréklossum. Slíkt þykur eyjaskeggjum of hávært. Þar að auki er bannað að hengja blaut handklæði til þerris á svölum húsa.

Á baðströndinni við Ravenna er bannað að spila háværa tónlist milli klukkan eitt og fjögur á daginn og konur mega ekki ganga topplausar um ströndina.

Í Prodenone á Norður-Ítalíu er pörum bannað að rífast á götu út og varðar slíkt sektum. Í Feneyjum og Lucca getur það kostað 500 evra eða 80.000 krónur í sekt ef einhver er staðinn að því að fóðra dúfur þessara borga.

Á ströndinni við Ercalea er bannað að grafa í sandinn og þar má heldur ekki byggja sandkastala án þess að verða sektaður.

Í borginni Eboli á Suður Ítalíu eru kærustupör eða hjón í verulegum vandræðum ef lögreglan grípur þau við að kyssa hvort annað í bíl. Slíkt kossaflens kostar 80.000 krónur í sekt. Þetta kemur fram í úttekt Ekstra Bladet á þessum boðum og bönnum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×