Viðskipti innlent

Fyrri eigendur í ábyrgðum vegna lána til 1998

Þorbjörn Þórðarson skrifar

Gaumur, félag Jóns Ásgeirs Jóhannessonar og fjölskyldu, ISP, sem er í eigu Ingibjargar Pálmadóttur, og Bague, sem er í eigu Hreins Loftssonar, eru í ábyrgð vegna lána til félagsins 1998 en óvíst er hvort gengið verður að þeim. Jón Ásgeir og fjölskylda hafa misst eignarhald sitt á Högum, móðurfélagi Bónuss, Hagkaupa og fleiri verslana, en Arion banki hefur ákveðið að skrá félagið í Kauphöll.

Engar breytingar verða á starfsmannahaldi og stjórnendur allra fyrirtækja undir Haga-samstæðunni verða áfram. Jóhannes Jónsson, stofnandi Bónuss, verður starfandi stjórnarformaður og Finnur Árnason verður áfram forstjóri.

Finnur Sveinbjörnsson forstjóri Arion banka segir ferlið í málum sem þessum langt og strangt og því gæti það tekið einhverja mánuði að koma félaginu á markað.

Milljarða ábyrgð

Hluturinn í Högum var áður í eigu félagsins 1998 ehf. sem er mjög skuldsett og eignalaust í dag. Þegar Kaupþing banki lánaði fyrirtækinu 30 milljarða til að kaupa Haga út úr Baugi sumarið 2008 gengust Jón Ásgeir Jóhannesson og aðrir eigendur 1998 ehf. í persónulega ábyrgð fyrir hluta lánsins. Sá ábyrgð hleypur á milljörðum króna. Þegar Finnur Sveinbjörnsson er spurður um hvað verði um ábyrgðirnar segist hann ekki vilja tjá sig um það að svo stöddu.

Almenningi og fagfjárfestum mun standa til boða að kaupa hluti í félaginu. Núverandi stjórnendum Haga býðst forkaupsréttur að 15% hlut og þar af Jóhannesi Jónssyni allt að 10% hlut á sama gengi og öðrum fjárfestum.

Jóhannes Jónsson, starfandi stjórnarformaður Haga, baðst undan viðtali en sagði í yfirlýsingu að það væri fyrir öllu að nú hefði óvissu um framtíð Haga verið eytt. Hann sagðist vona að þetta myndi skapa vinnufrið í kringum Haga.

Starfsmenn og stjórnendur ætla að kaupa

Ný fimm manna stjórn verður skipuð í Högum, sem samanstendur af Guðbrandi Sigurðssyni, Ernu Gísladóttur, Steini Loga Björnssyni, Svönu Helen Björnsdóttur og Jóhannesi Jónssyni.

Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggjast starfsmenn Haga og stjórnendur kaupa fyrirtækið aftur um leið og það verður skráð á markað, en þeir hafa forkaupsrétt að 15 prósenta hlut, eins og áður segir. Ekkert bannar fyrri eigendum og stjórnendum að bjóða í þau 85 prósent sem þeir hafa ekki forkaupsrétt á. Samkvæmt heimildum fréttastofu hyggst Jón Ásgeir Jóhannesson bjóða í fyrirtækið í samvinnu við aðra í þessu útboðsferli.






















Fleiri fréttir

Sjá meira


×