Innlent

Yngstu börnin færð og félagsmiðstöðin líka

Á Selfossi hafa verið kynntar hugmyndir um að sameina undir eitt þak rekstur Vallaskóla, sem nú er rekinn í Sandvíkur- og Sólvallaskóla.
 Fréttablaðið/ÓKÁ
Á Selfossi hafa verið kynntar hugmyndir um að sameina undir eitt þak rekstur Vallaskóla, sem nú er rekinn í Sandvíkur- og Sólvallaskóla. Fréttablaðið/ÓKÁ
Uppi eru ráðagerðir í Árborg um að leggja niður skólahald í elsta starfandi grunnskólahúsnæði Selfoss og leigja húsið út.  Vallaskóli á Selfossi hefur síðustu ár verið starfræktur í tveimur aðskildum skólum, Sandvíkurskóla þar sem eru nemendur frá fyrsta og upp í fjórða bekk, og Sólvallaskóla fyrir nemendur frá fimmta og upp í tíunda bekk.

Samkvæmt áætlunum sem kynntar hafa verið nemendum, foreldrum og kennurum stendur til að yngstu deildirnar fjórar færist í húsnæði Sólvallaskóla. Einnig verði endurnýjað húsnæði við Sólvallaskóla þar sem félagsmiðstöðin Zelsíus er til húsa þannig að henti til kennslu yngstu bekkjardeildanna. Félagsmiðstöðin færist svo í annað húsnæði í eigu bæjarins.

Með breytingunum er áætlað að nokkur sparnaður náist fram. Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Árborgar, segir að þótt skólanefnd eigi enn eftir að taka ákvörðun um flutninginn sé í nýsamþykktri fjárfestingaráætlun bæjarins gert ráð fyrir kostnaði við að breyta húsnæði félagsmiðstöðvarinnar í kennsluhúsnæði.

Þegar Ásta og Guðbjartur Ólason, skólastjóri Vallaskóla, fóru nýverið yfir fyrirhugaðar breytingar með bekkjartenglum í hópi foreldra skólabarna í Vallaskóla kom fram í máli Guðbjarts að breyting á húsnæðismálum skólans hefði verið fyrirhuguð í nokkur ár. Nemendum í skólanum hefur fækkað með tilkomu Sunnlækjarskóla, annars grunnskóla í bænum, fyrir nokkrum árum. Nú sé hins vegar komið jafnvægi á fjölda nemenda og aldursskiptingu í samspili við hinn skólann og tímabært að huga að húsnæðismálunum.- óká



Fleiri fréttir

Sjá meira


×