Erlent

Vilja kjósa um aðild Tyrklands að ESB

Heinz-Christian Strache og félagar hans í hópi hægrimanna vilja láta kjósa um inngöngu Tyrklands í ESB. Fréttablaðið/AP
Heinz-Christian Strache og félagar hans í hópi hægrimanna vilja láta kjósa um inngöngu Tyrklands í ESB. Fréttablaðið/AP
Flokkar utarlega á hægri væng evrópskra stjórnmála hyggjast efna til undirskriftasöfnunar til að þrýsta á um almenna þjóðar­atkvæðagreiðslu innan Evrópusambandsins (ESB) til að koma í veg fyrir aðild Tyrklands að sambandinu.

Um helgina hittust fulltrúar hægriflokka í Vín, að undirlagi Frelsisflokks Austurríkis. Þar voru samankomnir Sjálfstæðisflokkur flæmingja í Belgíu, Norðurbandalagið frá Ítalíu, Svíþjóðardemókratar og danski Þjóðarflokkurinn.

Var það niðurstaða fundarins að Tyrkland „ætti ekki heima í Evrópu“ og að borgarar ESB ættu að fá að segja sína skoðun á málinu. Því er lagt út í undirskriftasöfnun, en samkvæmt Lissabon-sáttmála ESB er hægt að krefja framkvæmdaráð sambandsins um að íhuga lagasetningu í tilteknu máli ef ein milljón undirskrifta fást því til stuðnings.

Heinz-Christian Strache, formaður Frelsisflokksins, sagði eftir fundinn að Evrópa væri á villigötum ef Tyrklandi yrði hleypt inn. „Innganga Tyrklands myndi boða endalok ESB og upphaf sam-evrópsk-asísk-afrísks sambands sem er í andstöðu við friðarverkefni Evrópu og það má ekki gerast.“ - þj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×