Erlent

Halvtreds hvad for noget?

Óli Tynes skrifar
Seðillinn umdeild. Eins og allir sjá er þetta halvtresindtyve sem eru 50.
Seðillinn umdeild. Eins og allir sjá er þetta halvtresindtyve sem eru 50.

Danir og Norðmenn eru komnir í hár saman yfir nýjum peningaseðli sem gefinn hefur  verið út í Danmörku.

Stærsta dagblað Noregs, Verdens gang húðskammar Dani fyrir þá heimsku að skilja ekki þann norska sið að setja einfaldlega orðið tíu á eftir til dæmis 3-4 eða 5 þegar talið er í tugum í rituðu máli.

Gremja Verdens Gang er til komin vegna þess að á nýja danska 50 króna seðlinum stendur „halvtreds kroner" en ekki „femmti kroner" eins og á fyrri seðlunum.

Þetta telur blaðið að geti valdið norskum ferðamönnum í Danmörku ómældum vandræðum.

Verdens gang fer niðrandi orðum um íbúa „pönnukökulandsins" og vitsmuni íbúa þess. Danir taka þessu náttúrlega ekki þegjandi.

Í grein í Berlingske Tidende er spurt hvort hinum norsku túristum sé um megn að skilja töluna 50 sem einnig er á seðlunum.

Berlingske segir að Norðmönnum sé viss vorkun.  Það þurfi sjálfsagt aðeins meiri hæfileika til abstrakthugsunar og meiri menntun en þeir hafi til skilja hin ofureinföldu rök fyrir „halvtreds."

Eins og allir sæmilega skynsamir menn viti sé þetta stytting á „halvtredsindtyve" eða hálfur þriðji (semsagt tveir og hálfur) sinnum tuttugu. Þetta geri 50.

Með þessa vitneskju að vopni megið þið svo lesendur góðir skemmta ykkur við að ráða framúr öðrum dönskum tölum eins og „tres, halvfjerds, firs og halvfems."

Góða helgi.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×