Erlent

Flugur ónæmar fyrir malaríu

Moskítóflugurnar geta borið með sér sníkjudýr sem veldur malaríu.
Moskítóflugurnar geta borið með sér sníkjudýr sem veldur malaríu.
Vísindamönnum hefur tekist að búa til erfðabreyttar moskítóflugur sem geta ekki smitað fólk af malaríu.

Reynt hefur verið að erfðabreyta flugunum á þennan hátt í mörg ár en hingað til hefur bara tekist að minnka líkurnar á smiti. Nú hefur vísindamönnum í háskólanum í Arizona tekist að rækta flugur sem eru ónæmar fyrir sníkjudýrinu sem veldur malaríu. Vonast er til þess að í framtíðinni verði hægt að skipta þessum moskítóflugum út fyrir þær hefðbundnu. Þegar búið verður að finna út leið til að gera það verður hægt að sleppa þeim, en þangað til eru þær læstar í búrum á rannsóknarstofum.

Vísindamennirnir sprautuðu tilraunaflugur með malaríusmituðu blóði, en allar reyndust þær ónæmar. Rannsóknin hafði miðast að því að ná framförum í málinu og kom það því skemmtilega á óvart hversu vel tókst til. Um 250 milljónir manna smitast af malaríu á hverju ári og af þeim lætur ein milljón lífið. Flestir sem látast úr sjúkdómnum eru börn. Aðeins er hægt að smitast af sjúkdómnum í gegnum moskítóflugurnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×