Viðskipti innlent

Kröfur Landsbankans á Straum ekki forgangskröfur

Hæstiréttur hefur staðfest dóm Héraðsdóms um að kröfur Landsbankans upp á 48,5 milljarða kr. á hendur Straumi séu ekki forgangskröfur.

Landsbankinn krafðist þess að kröfur hans á hendur Straumi yrðu við slitameðferð Straums viðurkenndar sem forgangskröfur samkvæmt lögum um gjaldþrotaskipti og lögum um fjármálafyrirtæki.

Í reifun Hæstaréttar segir að aðila greindi ekki á um að Landsbankin ætti kröfur á hendur Straumi og enginn tölulegur ágreiningur var í málinu. Þeim bar hins vegar ekki saman um hvers eðlis þær greiðslur Landsbankans til Straums hefðu verið, sem fram komu í kröfulýsingu þess fyrrnefnda.

Landsbankinn hélt því fram að um hefði verið að ræða svonefnd peningamarkaðsinnlán, sem ætluð hefðu verið til ávöxtunar fjár eins og hver önnur innlán. Straumur taldi á hinn bóginn að um lán til sín hefði verið að ræða sem í öllum tilvikum yrðu rakin til lánasamninga, sem áður hefðu verið gerðir milli aðilanna, og greiðslur Landsbankans yrðu skýrðar með.

Í samræmi við það hefði kröfum Landsbankans verið skipað í flokk almennra krafna. Ágreiningslaust var að kröfur Landsbankans nytu ekki tryggingaverndar samkvæmt lögum. Þegar af þeirri ástæðu gætu kröfurnar ekki notið þeirrar rétthæðar við slit Straums , sem Landsbankinn krafðist, og þyrfti þá ekki að leysa sérstaklega úr því hvort þær væru til komnar sem innlán eða lánveiting.

Hæstiréttur staðfestir því úrskurð Héraðsdóms og kröfum Landsbankans er hafnað. Landsbankanum var jafnframt gert að greiða málsvarnarlaun Straums upp á 800 þúsund kr.










Fleiri fréttir

Sjá meira


×