Innlent

Plöntutegundum fækkar í eynni

Þessi ætihvönn blómstraði og myndaði fræ í fyrsta skipti í Surtsey í ár, og bendir allt til þess að hvönn verði útbreidd í eynni þegar fram líða stundir.
Mynd/Borgþór Magnússon
Þessi ætihvönn blómstraði og myndaði fræ í fyrsta skipti í Surtsey í ár, og bendir allt til þess að hvönn verði útbreidd í eynni þegar fram líða stundir. Mynd/Borgþór Magnússon
Plöntutegundum hefur fækkað í Surtsey þriðja árið í röð, og telja vísindamenn líklegt að toppnum í fjölda plöntutegunda hafi verið náð. Skordýrategundum hefur þó fjölgað.

„Það er ljóst að plöntum mun ekki fjölga endalaust í Surtsey,“ segir Borgþór Magnússon, vistfræðingur á Náttúrufræðistofnun. Hann segir þétt gras þjarma að smávöxnum plöntum, sem sé svipuð þróun og virðist hafa orðið í öðrum úteyjum Vestmannaeyja.

Borgþór segir að þótt plöntum hafi fækkað hafi leiðangursmenn nú séð að ætihvönn virðist nú loks vera að ná sér á strik. Ein planta hafi blómgast og muni fræ frá henni líklega verða upphafið að frekari útbreiðslu í eynni. Líklegt þykir að hvönnin verði áberandi í Surtsey í framtíðinni, en sauðfé heldur henni niðri í öðrum úteyjum.

Nokkrar nýjar skordýrategundir fundust í Surtsey þetta árið, og segir Borgþór líklegt að tegundunum muni eitthvað fjölga á næstu árum. Skordýrin komi gjarnan nokkru á eftir plöntutegundum, sérstaklega þegar þétt gras- og blómlendi hafi myndast. - bj



Fleiri fréttir

Sjá meira


×